Hoppa yfir valmynd

Stjórnvöld svara andsvörum ESA við málsvörn Íslands

Tim Ward aðalmálflytjandi Íslands
Tim Ward aðalmálflytjandi Íslands


Annarri umferð skriflegs hluta málflutnings í Icesave-málinu lokið

Stjórnvöld hafa í dag sent EFTA-dómstólnum gagnsvör í Icesave-málinu. Með þeim er svarað athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við fyrri greinargerð stjórnvalda. Þar með er lokið annarri umferð í skriflegum hluta málflutnings fyrir dómstólnum.

Frestur annarra EFTA-ríkja og aðildarríkja Evrópusambandsins til að taka þátt í meðferð málsins með skriflegum athugasemdum er á enda runninn þriðjudaginn 15. maí nk.

Þá hefur EFTA-dómstóllinn heimilað meðalgöngu framkvæmdastjórnar ESB og veitt henni frest til 24. maí nk. til að skila greinargerð meðalgönguaðila. Gert er ráð fyrir að Ísland fái í framhaldinu tækifæri til að svara þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.

 

Helstu atriði í andsvörum ESA

Málsmeðferðarreglur EFTA-dómstólsins gera ráð fyrir að stefnandi eigi þess kost að svara greinargerð varnaraðila með andsvörum. ESA skilaði andsvörum við málsvörn stjórnvalda 12. apríl sl. Þar kemur fátt nýtt fram. Enn er byggt á því tvennu að Ísland hafi brotið gegn efndaskyldu (e. obligation of result) í tengslum við innstæðutryggingatilskipunina og að skipting bankanna hafi falið í sér mismunun milli aðila í sambærilegri stöðu.

Áherslumunur er þó á staðhæfingum ESA varðandi tilskipunina. Í stefnu ESA var gefið í skyn að stjórnvöldum væri skylt að ábyrgjast skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) eða leggja til fjármuni til að efna þær, ef í nauðirnar ræki.  Í andsvörum ESA er aðeins dregið í land hvað þetta varðar. ESA slær því föstu að kerfið hafi brugðist, en tekur ekki af skarið um í hverju vanrækslan á að hafa falist. Ekki skipti máli hvað það var sem brást eða hvernig hefði átt að bregðast við.

ESA reynir að sumu leyti að afbaka röksemdir Íslands og lýsir því yfir í andsvörunum að Ísland hafi samþykkt eða viðurkennt ýmislegt sem ekki á við rök að styðjast. Sem dæmi þá heldur ESA því fram að það sé óumdeilt að Ísland hafi ekkert gert til að tryggja hagsmuni innstæðueigenda í erlendum útibúum. Þetta er augljóslega rangt. Löngu máli var varið í það í fyrri greinargerð um málsvörn Íslands að útskýra þá bættu stöðu sem neyðarlögin bjuggu innstæðueigendum í þeim útibúum. Auk þess var mjög ítarlega útskýrt hvers vegna enginn möguleiki var á því að flytja skuldbindingar í nýju bankana eða stofna „ný“ útibú í Bretlandi og Hollandi.

ESA reynir jafnframt að láta líta svo út að Ísland hafi haldið því fram að innstæðutryggingakerfi ættu ekki að virka við alvarleg áföll og beri fyrir sig einhvers konar undantekningarreglu sér til varnar. Þetta er heldur ekki rétt lýsing á málstað Íslands: Bent hefur verið á að engin kerfi virki við slíkar aðstæður og að það feli ekki í sér brot á efndaskyldu (obligation of result) ef innstæðutryggingakerfi hefur á annað borð verið sett á laggirnar, kerfi sem var á allan hátt sambærilegt við það sem tíðkast annars staðar í Evrópu og fjármagnað á sams konar hátt.

Þá svaraði ESA ekki efnislega röksemdum um mismunun í greinargerð Íslands.

 

Gagnsvör íslenskra stjórnvalda

Stjórnvöld hafa í dag sent gagnsvör við framangreindum andsvörum. Málatilbúnaði ESA er algerlega vísað bug, en helstu efnisatriði svarsins eru eftirfarandi:

(a)  ESA hefur afbakað málsvörn Íslands og vanrækt að svara hinum efnislegu rökum sem Ísland hefur sett fram.

(b)  ESA gerir enga tilraun til að andmæla staðreyndum sem Ísland hefur sett fram varðandi efnahagslegar afleiðingar ríkisábyrgðar á innstæðutryggingakerfum við kerfishrun. Því er óumdeilt að umfang hinnar undirliggjandi áhættu af innstæðutryggingakerfunum myndi vera um 83% af landsframleiðslu ríkja ESB ef sama regla ætti að gilda alls staðar. Því er heldur ekki andmælt af hálfu ESA að ekkert innstæðutryggingakerfi í Evrópu hefði ráðið við kerfishrun. Að mati stjórnvalda getur það ekki verið brot á skyldu ríkis þegar hið óumflýjanlega gerist.

(c)  Bent er á mótsagnir í málatilbúnaði ESA. Stofnunin virðist nú byggja á því að innstæðutryggingatilskipunin feli ekki endilega í sér notkun ríkisfjár, en samt er krafist niðurstöðu sem í öllum tilvikum myndi fela í sér að leita þyrfti í ríkissjóð til að afla fjármagns. Farið er yfir það hversu ESA hefur verið vaklandi í þessum þætti málatilbúnaðarins á fyrri stigum (Letter of Formal Notice, Resoned Opinion og stefnu til dómstólsins).

(d) Ítrekaðar eru röksemdir Íslands í tengslum við ríkisstyrkjareglur á EES-svæðinu en byggt hefur verið á því að það sýni einna gleggst að skyldur til greiðslna úr ríkissjóði eru ekki til staðar samkvæmt tilskipuninni, að sækja þurfi um heimild til slíks sem ríkisstyrks. Mótmælt er röksemdum ESA um hið gagnstæða og þýðingu tilvísana þeirra til svokallaðrar SoFFin ákvörðunar vegna ráðstöfunar á þýsku skattfé í innstæðutryggingasjóði.

(e)  Farið er yfir samanburð við aðrar tilskipanir þar sem reynt hefur á afleiðingar vegna vankanta á innleiðingu eða virkni þeirra réttinda sem þær hafa átt að tryggja, einkum í tengslum við svokallað Blödel-Pawlik mál sem fjallaði um réttindi þeirra sem eiga viðskipti við ferðarskrifstofur. Þar var fjallað um skyldur tryggingafélags sem tryggði viðskiptamönnum ferðarskrifstofunnar tjón er verða kynni vegna gjaldþrots o.þ.h. Bent er á að tilvísun ESA til þess dóms sé fráleit því það mál varðar einmitt ekki skyldur ríkisins gagnvart viðkomandi einstaklingi, og ekkert í dómnum gefur til kynna að viðkomandi ríki gæti borið ábyrgð vegna gjaldþrots ferðarskrifstofunnar. Dómurinn sýnir raunar vel að ef röksemdir ESA um „obligation of result“ væru teknar til greina, myndu aðildarríki í raun alltaf ábyrgjast skuldbindingar fyrirtækja gagnvart neytendum (þ.e. ef fyrirtækin gætu ekki efnt þær).

(f)  Í svari Íslands er farið yfir stöðu Tryggingasjóðs innstæðueigenda, en ESA hefur nokkuð byggt á því að þar sem ríkið hafi haft ákveðin tengsl við sjóðinn hafi í raun mátt líta á hann sem hluta af íslenska ríkinu (Emanation of the State). Því er harðlega mótmælt og bent á að ríkið skipaði einungis tvo stjórnarmenn af sex og auk þess geti þau atriði sem ESA nefnir ekki skipt máli þegar metnar eru skyldur ríkja samkvæmt innstæðutilskipuninni.

(g)  Gerð er nánari grein fyrir röksemdum Íslands í svokallaðri force majeure vörn (óviðráðanleg ytri atvik), en ESA hefur í sjálfu sér ekki mótmælt þeim staðreyndum sem Ísland hefur byggt á. ESA telur hins vegar að fjárhagslegir þættir geti aldrei undanþegið ríki því að uppfylla skuldbindingar sínar.

(h)  Að lokum er í gagnsvörum Íslands farið nánar yfir röksemdir sem tengjast málsástæðum ESA varðandi mismunun.

Gagnsvör íslenskra stjórnvalda má lesa í heild sinni hér (á ensku)

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics