Hoppa yfir valmynd

Framsöguræða utanríkisráðherra um Palestínu

Ossur thing
Ossur thing

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mælti 6. október sl. fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi feli ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Í ræðu ráðherra kom m.a. fram að hann telji engin efnisleg rök mæla gegn samþykkt tillögunnar og benti á að allt frá 1947 hafi Ísland stutt tveggja ríkja lausn, þannig að Palestína og Ísrael myndi sjálfstæð ríki.

Í ræðu ráðherra kom fram að ekki væri siðferðilega verjandi af hálfu Íslendinga að bíða. Vísaði ráðherra í þessu samhengi til arabíska vorsins í mörgum ríkja Miðausturlanda. Færði hann rök fyrir því að um tvískinnung væri að ræða ef alþingismenn sem styddu arabíska vorið skirrtust við að ljá Palestínumönnum stuðning í sinni réttindabaráttu.Ráðherra minntist þess einnig að íslensk stjórnvöld hefðu áður gefið Palestínumönnum fyrirheit um eigið ríki, svo framarlega sem undirbúningur ætti sér stað, þar sem Palestína ynni að því að byggja upp stofnanir og þá innviði sem þarf til að reka fullvalda ríki. Nú væri komið að Íslandi að standa við sín orð.

Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á að byggja upp pólitísk tengsl við heimastjórn Palestínu og að Íslendingar styðji sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstætt ríki þeirra. Utanríkisráðherra hefur fylgt stefnu ríkisstjórnarinnar eftir með samskiptum við ráðamenn Frelsishreyfingar Palestínumanna og heimastjórnar Palestínu og við stjórnvöld í Ísrael, Egyptalandi og Jórdaníu.

Frá árinu 1988 hafa alls 127 ríki viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Viðurkenning á Palestínu er í samræmi við málflutning Íslands og alþjóðasamfélagsins um að Ísraelar og Palestínumenn leiti sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og samþykkta Sameinuðu þjóðanna. Í athugasemdum við tillöguna segir jafnframt að nýlegar úttektir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans hafi leitt til yfirlýsinga allra þessara stofnana um að palestínska heimastjórnin standist fyllilega viðmið um að geta haldið úti rekstri ríkis.

Hlekkur á þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.

Hlekkur á ræðu utanríkisráðherra.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics