Hoppa yfir valmynd

Fjármálastöðugleikaráð - fundargerð frá 6. apríl 2017

Fundur fjármálastöðugleikaráðs haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti 6. apríl 2017.

Ráðsmenn: Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Aðrir fundarmenn: Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, Bryndís Ásbjarnardóttir, forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hefst 13:00

1. Greinargerð kerfisáhættunefndar

Formaður kerfisáhættunefndar dró fram helstu áhættur í fjármálakerfinu um þessar mundir. Athyglinni var sérstaklega beint að spennu í þjóðarbúskapnum og hvernig hún gæti síðar meir spilað saman við fjármálakerfið, vexti ferðaþjónustunnar og fjármögnun hans, auk þenslu á fasteignamarkaði. Staða heimila og fyrirtækja væri hins vegar almennt sterk. Nýtt umhverfi tæki nú við í framhaldi af losun fjármagnshafta þar sem þjóðarbúið yrði að öllum líkindum viðkvæmara en áður fyrir þróun á erlendum fjármálamörkuðum. Aukið aðgengi fjármálafyrirtækja að erlendum lánamörkuðum gæti skapað freistnivanda til þess að veita erlendu lánsfé inn í landið – sérstaklega fyrir þá aðila sem hefðu ekki burði til að bera slíka áhættu.

Rætt var um arðgreiðslur viðskiptabankanna þriggja og hvernig þær hefðu áhrif á eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu þeirra. Fram kom að Fjármálaeftirlitið myndi ræða við bankana ef arðgreiðslur yrðu umfram stefnu. Eiginfjárkrafa á bankana er áhættutengd og ef álagspróf gæfu tilefni til færi Fjármálaeftirlitið fram á að aukið eigið fé yrði bundið vegna þessa.

2. Mat á áhættu tengdri millimarkmiði 1

Forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu fór yfir áhættu tengda millimarkmiði eitt, þ.e. að vinna gegn óhóflegum útlánavexti, skuldsetningu og ójafnvægi á eignamörkuðum. Litið var til útlánavaxtar einkageirans, húsnæðissveiflunnar og hugsanlegra áhrifa hennar á útlánatap, verðhækkana á fasteignamarkaði og skorts á framboði, fjármögnunar bankanna og viðnámsþróttar þeirra auk stöðu fjármálasveiflunnar og líkindaútreiknings á fjármálaáfalli. Þá var farið yfir þau þjóðhagsvarúðartæki sem finna má í tilmælum kerfisáhætturáðs Evrópusambandsins til að bregðast við áhættu tengdri millimarkmiði eitt, sé talið tilefni til. Þessi tæki eru sveiflujöfnunarauki, veðsetningarhlutfall og takmörk á fasteignalán eða greiðslubyrði miðað við tekjur. Fjármálaeftirlitið fékk heimild til þess að beita tveimur síðastnefndu tækjunum 1. apríl sl. með lögum nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda.

Almennt fjallað um aðferðafræði við mat á kerfisáhættu og alþjóðlega reynslu af henni. Þá var einnig farið yfir breytingar sem gerðar hafa verið á skýrslugjöf til eftirlitsaðila og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum frá fjármálaáfallinu haustið 2008 sem ætlað er að varpa betra ljósi á áhættu auk breytinga á áhættustýringu bankanna sjálfra síðastliðin ár, meðal annars vegna könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins.

Umræður um áhrif varúðarkrafna á samkeppni banka og lífeyrissjóða og eðlismun á starfsemi þeirra.

3. Ársfjórðungsleg ákvörðun um sveiflujöfnunarauka

Tillaga kerfisáhættunefndar um óbreyttan sveiflujöfnunarauka frá síðasta fundi, eða 1,25%, samþykkt. Ákveðið að senda tilmæli um óbreyttan sveiflujöfnunarauka til Fjármálaeftirlits í fyrsta sinn og að það yrði gert héðan í frá þegar aukanum væri haldið óbreyttum.

4. Staðfesting á kerfislega mikilvægum eftirlitsskyldum aðilum og eiginfjárauka á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki

Staðfest að Arion banki hf., Íslandsbanki hf., Landsbankinn hf. og Íbúðalánasjóður teljist áfram kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar. Samþykkt að halda eiginfjárauka á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki óbreyttum í 2%. Eiginfjárkrafan nær eingöngu til viðskiptabankanna þriggja þar sem ákvæði um eiginfjárauka í lögum um fjármálafyrirtæki gilda ekki um Íbúðalánasjóð.

5. Upptaka reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 – gr. 501.

Farið yfir mat á áhrifum afsláttarreglu sem fjármálafyrirtæki munu fá á eiginfjárkröfu vegna útlána til minni og meðalstórra fyrirtækja við upptöku reglugerðar (ESB) nr. 575/2016. Við er að búast að áhrifin hér á landi verði þó nokkur þar sem næstum öll fyrirtæki á Íslandi teljast lítil eða meðalstór samkvæmt skilgreiningum Evrópusambandsins. Að öðru óbreyttu mun upptaka 501. gr. reglugerðarinnar leiða til þess að eiginfjárkrafa á viðskiptabankana þrjá minnki um 1%, þó mismunandi eftir bönkum.

6. Önnur mál

Fréttatilkynning samþykkt með breytingum.

Fundi slitið 14:40

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics