Hoppa yfir valmynd

Afmælisbarn á besta aldri   

Anna Jóhannsdóttir
Anna Jóhannsdóttir

Það er kannski ofsagt að heimsmyndin hafi gjörbreyst á undanförnum vikum, en fyrir okkur fulltrúana sem vinnum að öryggis- og varnarmálum á vettvangi NATO, er eins og skipt hafi verið um sviðsmynd og handrit, á meðan sömu leikarar standa á sviðinu. 

Fyrir örfáum vikum litum við fram á haustið með bjartsýni og töldum að leiðtogafundur bandalagsins í september myndi marka upphaf fyrir “nýtt NATO” eða að minnsta kosti mjög endurnýjað NATO. Bandalag  sem væri reiðubúið og vel samhæft, í ríku samstarfi við fjölmörg önnur lönd, en að baki væru stórar aðgerðir eins og þeirri sem bandalagið hefur leitt og lýkur í Afganistan í árslok.

Nýjar áherslur bandalagsins voru í undirbúningi í öruggari og stöðugri heimsmynd, þar sem friður hefur að mestu ríkt á svæði bandalagsþjóðanna í áratugi. Hér funduðum við sendiherrarnir reglulega með rússneska kollega okkar, Grushko, og sérfræðingar bandalagsríkja og Rússa unnu saman í nefndum, vinnuhópum og verkefnum. Hermálayfirvöld áttu samstarf og samskipti um ýmis mál. Við ræddum heræfingar okkar og Rússanna, fulltrúar beggja fylgdust með slíkum æfingum, rætt var samstarf og öryggismál á alþjóðavettvangi. 

Eftir atburðina í Úkraínu hefur þurft að endurstilla fókusinn. Öllum samskiptum og samvinnu við Rússa hefur nú verið slegið á frest þar til ákvörðun verður tekin um annað, nema að hægt er að funda á sendiherrastigi eða meðal ráðherra gefist tilefni til.

Það er ekki skollið á nýtt kalt stríð og enginn vill afturhvarf til þess tíma. Eins og alltaf, þarf að halda opnu sambandi og vinna að pólitískri lausn. Það gerum við, Ísland, meðal annars hér í Atlantshafsbandalaginu, en líka í öllum öðrum alþjóðastofnunum þar sem við eigum rödd, tökum þátt og vinnum að lausnum.

Á þessum degi, 4. apríl árið 1949, var mikilvægt grundvallarskjal undirritað í Washington. Það var stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins og Ísland var eitt stofnríkjanna tólf. Bandalagið er því 65 ára í dag.

Bjarni Benediktsson undirritar stofnsáttmála NATO 4. apríl 1949

Víða í Evrópulöndum miðast eftirlaunaaldur við 65 ár eða þar um bil. Það er því ekki að undra að sumir hafi spurt sig í aðdraganda afmælis bandalagsins hvort það væri kannski komið að fótum fram, hefði þjónað hlutverki sínu og ætti að draga saman seglin eða láta öðrum eftir sviðið. En hlutverk NATO í alþjóðasamfélaginu og sem grundvöllur öryggis- og varnarsamstarfs Evrópuþjóða og Norður-Ameríku hefur kannski aldrei verið skýrara en einmitt nú, þegar tryggja þarf sameiginlega öryggi bandalagsríkja og styðja við samstarfsríki.

Það var Aristóteles sem sagði að það væri ekki nóg að vinna stríðið, mikilvægara væri að skipuleggja friðinn, því annars væri allur árangur stríðs unnin fyrir gýg. 

Við ætlum því að halda áfram að vinna að skipulagi friðarins hér í bandalaginu.


Anna Jóhannsdóttir er fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics