Hoppa yfir valmynd

Hvatt til friðar í Úkraínu á ráðherrafundi ÖSE

Auðunn Atlason á fundi ÖSE.

Átökin í Úkraínu voru meginumfjöllunarefni utanríkisráðherrafundar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, sem fram fór í Basel í Sviss í gær og í dag. Hörð gagnrýni kom fram á viðvarandi stuðning Rússlands við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu og innlimun Krímskaga, enda skýlaust brot á alþjóðalögum. Lof var borið á starf alþjóðlegra eftirlitsmanna í Úkraínu og undirstrikað að ÖSE gegnir mikilvægu hlutverki við að koma á friði með því að miðla málum og hafa eftirlit með vopnahléssamkomulaginu um Úkraínu sem var undirritað í Minsk í haust.

Bæði Rússland og Úkraína eiga aðild að ÖSE, sem er stærsta svæðisbundna öryggisstofnun heims með alls 57 aðildarríki, og hefur stofnunin því nýst vel sem vettvangur samráðs og samvinnu. Hlutverk ÖSE sem var stofnað árið 1975 er að tryggja öryggi á grundvelli hins breiða öryggishugtaks sem gengur út á að virðing fyrir mannréttindum, lýðræði og reglum réttarríkisins séu besta tryggingin fyrir friði. Á fundinum var einnig fjallað um þá ógn sem stafar af alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum og um mikilvægi mannréttinda þ. á m. tjáningarfrelsis og jafnréttis.

Af hálfu Íslands sóttu fundinn Auðunn Atlason, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE, Þórður Ingvi Guðmundsson, varafastafulltrúi, og Arnór Sigurjónsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu.

Serbía tekur við formennsku í ÖSE um áramótin af Sviss, sem hefur gengt henni undanfarið ár. Á fundinum í Basel var jafnframt ákveðið að Þýskaland taki við formennsku 2016 og Austurríki árið 2017.

Ræða Íslands á ÖSE-fundinum

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics