Hoppa yfir valmynd

Gildistaka Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Nr. 070

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, sem gerð var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sumarið 1998, öðlast gildi í dag, 1. júlí 2002. Þá eru liðnir rúmir tveir mánuðir frá því að tilskilinn fjöldi ríkja, 60, hafði fullgilt samþykktina, en alls hafa nú 75 ríki fullgilt hana. Ísland varð hinn 25. maí 2000 tíunda ríkið til að fullgilda Rómarsamþykktina. Fyrsti fundur aðildarríkja samþykktarinnar verður haldinn í New York í byrjun september nk. og er gert ráð fyrir að saksóknari og dómarar verði kjörnir á öðrum aðildarríkjafundi í janúar nk. Samkvæmt því tekur Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn til starfa á næsta ári en hann mun hafa aðsetur í Haag.

Dómstóllinn hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Dómstóllinn er varanlegur og hefur almenna lögsögu og er því frábrugðinn alþjóðastríðsglæpadómstólunum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og Rúanda sem hafa takmarkaða lögsögu bæði í tíma og rúmi. Dómstóllinn hefur sjálfvirka lögsögu í málum er undir hann heyra, þ.e. óháða sérstöku samþykki viðkomandi ríkja. Skilyrði er þó að annaðhvort þegnríki sakbornings eða ríkið þar sem hið meinta brot var framið sé aðili að samþykktinni.

Stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins er tvímælalaust eitt mikilvægasta framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, en unnið hefur verið að stofnun slíks dómstóls allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 01.07.2002


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics