Hoppa yfir valmynd

Áherslur í makríldeilu skýrðar fyrir Tékkum

Össur Skarphéðinsson og Karel Schwarzenberg
Össur Skarphéðinsson og Karel Schwarzenberg

 
Á fundi með utanríkisráðherra Tékklands, Karel Schwarzenberg í Prag í dag, fór Össur Skarphéðinsson rækilega yfir makríldeiluna og sagði Íslendinga ekki geta unað því ef Evrópusambandið setti viðskiptaþvinganir á Ísland sem brytu í bága við alþjóðlegar skuldbindingar sambandsins.
 
Utanríkisráðherra skýrði fyrir kollega sínum að sumar þeirra aðgerða sem væru til umræðu brytu í senn reglur innri markaðarins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og reglur sem bæði Ísland og Evrópusambandið gengust undir við undirritun EES samningsins og er að finna í s.k. bókun níu.
 
Utanríkisráðherra Tékklands kvaðst hafa fullan skilning á því að allar ákvarðanir í þessa veru yrðu að vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Það gilti um Evrópusambandið jafnt og Íslendinga og aðrar þjóðir. Hann lýsti jafnframt skilningi á mikilvægi fiskveiða fyrir Ísland og kvaðst hafa kynnst því af eigin raun í heimsókn til landsins fyrr á árum.
 
Össur ítrekaði að Íslendingar vildu ná lausn á málinu sem væri í samræmi við gagnkvæmar þarfir málsaðila og hefðu viðgang makrílstofnins að leiðarljósi. Hann kvað Íslendinga alltaf hafa stundað fiskveiðar út frá sjónarmiðum sjálfbærni og rakti sem dæmi uppgang þorskstofnsins sem beinlínis mætti rekja til verndaraðgerða og tillits til stöðu stofnsins á umliðnum árum.
 
Ráðherrarnir ræddu ennfremur umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og kvaðst Schwarzenberg utanríkisráðherra styðja hana eindregið. Tékkar væru fylgjandi stækkun Evrópusambandsins og í umræðum um opnun mikilvægra kafla í viðræðunum, ss. um sjávarútveg, sagði hann skýrt að hann teldi gott að komast sem fyrst í umræður um aðalatriði samninga.
 
Ráðherrarnir ræddu ennfremur stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs, ekki síst í ljósi nýrrar ríkisstjórnar í Ísrael en utanríkisráðherra Tékklands átti í gær fund með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, og þremur öðrum ráðherrum, sem einnig eru staddir í Prag.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics