Hoppa yfir valmynd

Þing Norðurlandaráðs og fundur utanríkisráðherra Norðurlanda

Nr. 124

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag fund utanríkisráðherra Norðurlanda í Osló, sem haldinn var í tengslum við 55. þing Norðurlandaráðs. Á fundinum var m.a. rætt um stækkun Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðisins( EES), samvinnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og grannsvæðasamstarf, þ.m.t. við Rússland. Þá var fjallað um málefni Miðausturlanda, Íraks, Íran og Norður-Kóreu.


Í umræðum á þingi Norðurlandaráðs um skýrslur norrænna utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra lagði Halldór Ásgrímsson áherslu á mikilvægi áframhaldandi upplýsingaskipta og aukins samráðs Norðurlanda um málefni Evrópu í kjölfar fyrirhugaðrar stækkunar Evrópusambandsins. Hann lýsti ánægju með frumkvæði sænskra stjórnvalda að fundum utanríkisráðherra Norðurlanda annars vegar og utanríkisráðherra nokkurra Afríkuríkja hins vegar, þ.á m. nýlegan fund í Mósambik. Utanríkisráðherra tók fram að Ísland hygðist auka þróunarsamvinnu og efla pólitísk tengsl í þessum heimshluta.


Af þessu tilefni vísaði utanríkisráðherra til Doha-samningalotunnar innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og hvatti til þess að Norðurlönd efndu til samráðs við þróunarríki um hugsanlegar leiðir til að ljúka samningalotunni með ásættanlegum hætti.


Loks lýsti utanríkisráðherra vilja Íslands til virkari þátttöku í norrænu samráði og samstarfi á sviði varnarmála og nefndi í því sambandi að fundur varnarmálaráðherra Norðurlanda hefði verið haldinn á Íslandi í fyrsta sinn í september sl. og að þá hefði Ísland gerst aðili að formlegri samræmingu Norðurlanda á sviði friðargæslu (NORDCAPS).



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. október 2003

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics