Hoppa yfir valmynd

Nr. 045, 22. júní 2000. Utanríkisráðherrafundur Eystrasaltsráðsins í Bergen 21.-22. júní.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________


Nr. 45


Utanríkisráðherrafundur Eystrasaltsráðsins var haldinn í Bergen dagana 21.-22. júní. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd. Á dagskrá fundarins voru hin ýmsu málefni Eystrasaltssamstarfsins, þ.á m. efnahagsmál, umhverfismál og lýðræðisþróun. Meðal þess sem rætt var á fundinum var stefna Evrópusambandsins er varðar norðurhluta Evrópu og kennd hefur verið við norðlæga vídd. Einnig var rætt um að efla samvinnu á ýmsum sviðum.
Á fundinum ræddi Halldór Ásgrímsson um nýja áætlun Evrópusambandsins um norðlæga vídd. Hann lýsti ánægju með áætlunina almennt og lagði áherslu á þá hluta hennar sem lúta að umhverfismálum, meðferð kjarnorkuúrgangs á norðurslóðum, einkum í norð-vesturhluta Rússlands og málefnum norðurskautsins. Utanríkisráðherra ræddi jafnframt um að auka samstarf aðildarríkja Eystrasaltsráðsins, þ.á m. á sviði upplýsingatækni og heilsugæslu sem stofnað var til á nýlegum leiðtogafundi ráðsins. Undir kvöldverði flutti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hátíðarávarp fyrir hönd utanríkisráðherranna.
Utanríkisráðherrarnir tóku ýmsar ákvarðanir m.a. á sviði umhverfis- og menntamála. Þá var ákveðið að framlengja erindisbréf sérstaks mannréttinda- og lýðræðisfulltrúa ráðsins með nokkuð breyttum áherslum. Danski þingmaðurinn, Helle Degn, fyrrverandi þróunarmálaráðherra Dana, var valin í stöðu mannrétttinda- og lýðræðisfulltrúa ráðsins, en hún tekur við starfinu af Ole Espersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra Dana.
Nánari upplýsingar um ráðherrafundinn, þ.á m. yfirlýsingu fundarins, er að finna á heimasíðu Eystrasaltsráðsins www.baltinfo.org



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 22. júní 2000


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics