Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 47

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat utanríkisráðherrafund Norðurlanda er haldinn var á siglingu á milli Bodö og Tromsö í Noregi 21.-22.maí 1997. Málefni Evrópusamstarfsins, bæði Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins, ný skipan öryggismála í Evrópu, samstarf Norðurlanda á grannsvæðum og ástand mannréttindamála voru meginefni fundarins að þessu sinni.
Ráðherrarnir lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi þess að tengja Eystrasaltsríkin Evrópusamstarfi svo og á mikilvægi Eystrasaltssvæðisins í öryggismálum Evrópu.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hafði framsögu á fundinum um framkvæmd samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Í máli sínu áréttaði utanríkisráðherra mikilvægi EES samningsins og sagði að framkvæmd samningsins hefði eftir atvikum gengið vel. Einnig undirstrikaði hann þýðingu þess að Norðurlöndin þróuðu enn frekar innbyrðis samstarf sitt í Evrópumálum og kvaðst fullviss um að frekara samstarf á því sviði yrði Norðurlandasamstarfinu til mikilla hagsbóta vegna aukins vægis Evrópumála í öllum ríkjunum fimm
Utanríkisráðherrar Norðurlanda fögnuðu samstarfssamningi Atlantshafs-bandalagsins og Rússlands á sviði öryggismála og undirstrikuðu mikilvægi hans fyrir áframhaldandi stöðugleika og öryggi í Evrópu.
Á fundinum fjölluðu utanríkisráðherrar Norðurlanda um ástand mannréttinda í Tyrklandi, Kína, Íran, Búrma og Afganistan. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, vakti sérstaka athygli á bágri stöðu kvenna í Afganistan og hvatti til sameiginlegra aðgerða á alþjóðavettvangi til að bæta stöðu þeirra.
Yfirlýsing utanríkisráðherrafundar Norðurlanda 21.-22.maí 1997 er hjálögð.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 22. maí 1997.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics