Hoppa yfir valmynd

Fréttatilkynning frá forsætis- og utanríkisráðuneyti

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem fer fram í Búkarest í Rúmeníu dagana 2.- 4. apríl. Leiðtogafundurinn er sá stærsti í sögu bandalagsins, en um 60 þjóðarleiðtogar sitja fundinn auk um 3.000 fulltrúa bandalags- og samstarfsríkja og á fjórða þúsund blaða- og fjölmiðlamanna.

Fjallað verður um stækkun bandalagsins, en Albanía, Króatía og Makedónía hafa óskað aðildar. Þátttaka Úkraínu og Georgíu í aðildaráætlun bandalagsins verður til umfjöllunar svo og málefni Balkanskaga, einkum Kosovo, í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingarinnar þann 17. febrúar síðastliðinn. Aðgerðir alþjóðasamfélagsins í Afganistan verða einnig ofarlega á baugi, en herlið NATO og fjórtán annarra þjóða starfa þar í umboði Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban-ki-Moon, sækir þann hluta fundarins og mun það vera í fyrsta sinn sem aðalframkvæmdastjóri stofnunarinnar situr leiðtogafund NATO.

Í tengslum við leiðtogafundinn munu íslensku ráðherrarnir eiga tvíhliða fundi, m.a. hittir forsætisráðherra Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, til að ræða loftrýmiseftirlit við Ísland. Utanríkisráðherra ræðir málefni Norðurslóða og viðskiptamál. Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna verður á dagskrá allra tvíhliða fundanna.

Bæði forsætis- og utanríkisráðherrar aðildarþjóða NATO sækja leiðtogafundi og er það eini fundurinn sem íslensku ráðherrarnir sækja báðir. Til að takmarka fjarveru frá landinu, m.a. vegna mikilvægs ríkisstjórnarfundar og fundar með bankastjórn Seðlabanka, var ákveðið að ráðherrarnir ferðuðust í þetta sinn með leiguflugi í stað áætlunarflugs.

                                                                                                       

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics