Hoppa yfir valmynd

Fundir utanríkisráðherra í New York

Nr. 090

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat á laugardag fund utanríkisráðherra Norðurlanda sem að þessu sinni var haldinn í New York í tilefni 57. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Málefni Íraks, Alþjóðlega sakamáladómstólsins og ástandið í Mið-Austurlöndum voru efst á baugi þeirra málefna Sameinuðu þjóðanna sem ráðherrarnir fjölluðu um.

Utanríkisráðherra hefur undanfarna daga átt fundi með ráðamönnum ýmissa ríkja um mál allsherjarþingsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann átti um helgina fund með Elisabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fer með málefni Evrópuríkja. Auk tvíhliða málefna Íslands og Bandaríkjanna ræddu þau meðal annars málefni Íraks og Alþjóðlega sakamáladómstólsins.

Þá hefur utanríkisráðherra ennfremur átt tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Króatíu, Búlgaríu og El Salvador.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, flytur á morgun, þriðjudaginn 17. september, ræðu í almennri umræðu þingsins og hefst ræða ráðherra um klukkan 15.00 að íslenskum tíma.

Unnt er að fylgjast með umræðunni á allsherjarþinginu í beinni útsendingu á veraldarvefnum á slóðinni: www.un.org/webcast og velja þar tengilinn "Live Webcast".



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 16. september 2002


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics