Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra sækir ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Iqaluit

©Arctic Council
Frá heimsókn til þorpsbúa Iaqluit

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í gær þátt í ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem fram fór í Iqaluit í Norður-Kanada. Fundinn sóttu ráðherrar norðurskautsríkjanna átta, fulltrúar frumbyggjasamtaka, áheyrnarríki og formenn vinnuhópa Norðurskautsráðsins.

Í yfirlýsingu fundarins, sem ráðherrar norðurskautsríkjanna undirrituðu, sammæltust þeir um að vinna saman að samkomulagi um loftslagsmál í París í desember 2015. Þá samþykktu ríkin að efla samvinnu um forvarnir gegn olíumengun á hafsvæðum norðurslóða og staðfestu jafnframt markmið um að vinna að því að draga úr mengunarvöldum eins og sóti og metani. Á sama tíma munu ríkin eiga samstarf um hreina og endurnýjanlega orkugjafa.

Í ávarpi sínu lagði Gunnar Bragi áherslu á frið, stöðugleika og samvinnu á norðurslóðum og að norðurskautsríkin deildu ábyrgð á sjálfbærni og vernd svæðisins. Eitt af meginhlutverkum ráðsins væri að tryggja umhverfis- og borgaralegt öryggi á norðurslóðum og mikilvægt væri að efla enn frekar hagnýtt samstarf, meðal annars byggt á samningum ríkjanna um leit og björgun og viðbrögð við olíumengun.

Lagði Gunnar Bragi áherslu á velsæld íbúa og samfélaga á norðurslóðum og mikilvægi mannauðs. Vísaði ráðherra í nýútkomnar skýrslur undir forystu Íslands um mannvistarþróun og jafnréttismál á norðurslóðum. Sagði hann jafna þátttöku karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins lykil að sjálfbærri þróun á svæðinu og hvatti hann samráðherra sína til að tryggja aukinn þátt jafnréttismála í starfi Norðurskautsráðsins.

Fráfarandi formaður Norðurskautsráðsins og umhverfisráðherra Kanada, Leona Aglukkaq stýrði fundinum og John Kerry, utanríkisráðherra og nýr formaður Norðurskautsráðsins, kynnti formennskuáætlun Bandaríkjanna 2015-2017. Á meðal þess sem Bandaríkjamenn leggja áherslu á eru viðbrögð við loftlagsbreytingum, málefni hafsins og bætt efnahags- og lífsskilyrði á norðurslóðum.

Þá sótti utanríkisráðherra fund með Efnahagsráði Norðurslóða þar sem ráðið kynnti starfsemi sína og markmið. "Efnahagsráð Norðurslóða verður mikilvægur vettvangur í að treysta og byggja frekar upp viðskiptasamstarf milli ríkja á svæðinu. Þá er mikilvægt að Efnahagsráðið stuðlaði að sjálfbærri og ábyrgri þróun, efnahagsvexti og samfélagsþróun á norðurslóðum í samráði við íbúa svæðisins,” sagði Gunnar Bragi á fundinum.

Ráðið, sem var stofnað í september 2014, er sjálfstæður vettvangur með fulltrúum viðskiptalífs norðurskautsríkjanna átta og taka fulltrúar frá Alaska við formennsku í ráðinu næstu tvö ár. Ísland á tvo fulltrúa í Efnahagsráðinu sem skipaðir eru af Norðurslóða-viðskiptaráði Íslands, sem komið var á fót á síðasta ári.

Ávarp utanríkisráðherra

Iqaluit yfirlýsingin

Skýrsla um jafnréttismál á norðurslóðum

Arctic Human Development report

 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics