Hoppa yfir valmynd

Þriðji fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2019

Fjármálastöðugleikaráð hélt sinn þriðja fund á árinu 2019 fimmtudaginn 26. september. 

Alþjóðlegar hagvaxtarhorfur hafa versnað og óvissa á alþjóðamörkuðum aukist frá síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs. Samfara hægari efnahagsumsvifum hér innanlands hafa fyrstu merki um aukin vanskil í fjármálakerfinu komið fram. Tengjast þau einkum byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu. Samdráttur í tekjum ferðaþjónustu er minni en sem nemur fækkun ferðamanna og staða greinarinnar því betri en á horfðist síðastliðið vor. Áframhaldandi óvissa ríkir um efnahagshorfur og hugsanleg áhrif þeirra á fjármálakerfið. Nokkuð hefur hægt á skuldavexti einkageirans og þá sérstaklega hjá fyrirtækjum. Verð á íbúðarhúsnæði hefur lítið breyst sl. mánuði og framboð þess eykst. Verð á atvinnuhúsnæði hækkar hins vegar enn umtalsvert.

Viðnámsþróttur viðskiptabankanna til að mæta frekari áföllum er talsverður. Eiginfjárhlutföll þeirra allra eru nokkuð yfir heildarkröfu um eigið fé. Lausafjárhlutföll bankanna eru yfir reglubundnum lágmörkum en bæta þyrfti lausafjárstöðuna í íslenskum krónum. Geta þjóðarbúsins til að takast á við áföll er góð eftir uppgang síðustu ára. Ytri staða þjóðarbúsins er jákvæð og skuldir hins opinbera og einkageirans litlar í sögulegu samhengi. Peningastefnan og ríkisfjármálin búa við hagstjórnarsvigrúm til að bregðast við þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og gjaldeyrisforði Seðlabankans er stór.

Samþykkt var að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum að svo stöddu. Þrátt fyrir að nú hægist á hagkerfinu er virðisrýrnun útlána hjá fjármálafyrirtækjum enn lítil. Fjármálastöðugleikaráð mun fylgjast áfram með útlánaþróuninni við næstu tilmæli um sveiflujöfnunarauka.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics