Hoppa yfir valmynd

Flugumferðastjórar á vegum Íslensku friðargæslunnar á leið til Kósóvó

Nr. 102

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Átta flugumferðarstjórar á vegum Íslensku friðargæslunnar fara til Kósóvó í dag, fimmtudaginn 10. október 2002 til að taka við flugumferðarstjórn flugvallarins í Pristina úr höndum ítalska flughersins, sem hefur starfað þar á vegum alþjóðaliðs Atlantshafsbandalagsins (KFOR) undanfarin tvö ár.

Samhliða þessu er unnið að því að skipuleggja fjölþjóðlegt samstarf, á vegum Atlantshafsbandalagsins, um rekstur flugvallarins þ.á.m. öflun nauðsynlegra tækja og búnaðar. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki eigi síðar en 1. desember 2002 og mun Ísland þá að auki taka við forystuhlutverki í yfirstjórn, flugumferðarstjórn og rekstri alþjóðaflugvallarins í Pristina.

Tilefni þessa verkefnis er beiðni framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins um aðstoð við rekstur flugvallarins í Pristina og þjálfun innlendra starfsmanna, sem síðar munu taka við yfirstjórn flugvallarins undir stjórn Sameinuðu þjóðanna. Gert er ráð fyrir því að starfstímabil flugumferðarstjóranna verði fyrst um sinn sex mánuðir en hugsanlegt er að sá tími verði framlengdur.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. október 2002


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics