Hoppa yfir valmynd

Ráðstefna um viðskipti Íslands og Bandaríkjanna í New York

Nr. 104

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Aðalræðisskrifstofa Íslands í New York hefur að undanförnu unnið að undirbúningi ráðstefnu um viðskipti Íslands og Bandaríkjanna, "Iceland - American Trade, at the Dawn of the 21st. Century", í samráði við verslunarráð Íslands og Ameríku.

Ráðstefnan hefst 24. október næstkomandi í Norræna húsinu í New York. Þar munu fyrirlesarar úr íslensku og bandarísku viðskiptalífi fjalla um margþætt samskipti Íslands og Bandaríkjanna á sviði viðskipta í nútíð og framtíð með sérstakri áherslu á vöruskipti, fjárfestingar, ferðaþjónustu og fjármálamarkaði.

Þann sama dag verður opnuð sýning helguð aldarafmæli Halldórs Laxness í Norræna húsinu og efnt til málþings um skáldið og verk hans. Einnig verða sýndar kvikmyndirnar Ungfrúin góða og húsið, Kristnihald undir jökli og Atómstöðin. Laxnessýningin stendur til 28. desember 2002.

Jafnframt munu verslunarráð Íslands og Bandaríkjanna og Iceland Naturally efna til sérstaks kvöldverðar þar sem íslenskt hráefni sem selt er í Bandaríkjunum verður kynnt sérstaklega en meðal gesta verða blaðamenn sem fjalla um matvæli og veitingahús. Einnig verður safnað áheitum í sérstakan menningarsjóð Íslands og Bandaríkjanna, "Iceland Cultural Fund", sem vistaður verður hjá American Scandinavian Foundation, eiganda og rekstraraðila Norræna hússins í New York.

Dagskrár viðskiptaráðstefnu og málþings um Halldór Laxness eru hjálögð. Nánari upplýsingar um ofangreinda viðburði er einnig að finna á heimasíðu aðalræðisskrifstofu Íslands í New York, www.iceland.org/us/nyc/ eða á www.icelandnaturally.com



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. október 2002



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics