Hoppa yfir valmynd

Félagsmálaráðherra á 50. fundi Kvennanefndar S.þ.

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, ávarpaði í dag 50. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York.

Ráðherrann lagði áherslu á að enda þótt árangur hefði náðst á grundvelli þeirrar stefnu sem mörkuð var á Peking ráðstefnunni árið 1995 þá væri ljóst að enn væri mikið verk að vinna. Mikilvægt væri að vinna í senn að framgangi jafnréttismála með alþjóðlegri samvinnu og á grundvelli jafnréttisáætlana í hverju ríki fyrir sig. Félagsmálaráðherra undirstrikaði í ávarpi sínu að áfram yrði haldið baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og mansali á heimsvísu og greindi frá því hvernig Íslendingar hafi unnið að þeim málum. Ráðherrann fjallaði jafnframt um mikla þátttöku íslenskra feðra í fæðingarorlofi sem eftir hefði verið tekið á alþjóðlegum vettvangi. Loks hvatti ráðherrann karla til þess að sækja alþjóðlega ráðstefnu um jafnréttismál sem haldin verður á Íslandi í september nk.

Félagsmálaráðherra hefur jafnframt tekið þátt í hringborðsumræðum ráðherra um konur og þróunarsamvinnu og mun síðar í dag taka þátt í umræðum norrænna jafnréttisráðherra um þátttöku kvenna í stjórnmálum. Á morgun mun félagsmálaráðherra ásamt öðrum norrænum ráðherrum eiga fund með Rachel Mayanja, sérstökum ráðgjafa Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í jafnréttismálum.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics