Hoppa yfir valmynd

Ársfundur Útflutningsráðs Íslands

Ágætu fundarmenn,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þennan fyrsta ársfund Útflutningsráðs síðan ég tók við embætti utanríkisráðherra fyrir tæpu ári síðan.

Í þeim sviptivindum sem gengið hafa yfir alþjóðlega fjármálamarkaði að undanförnu og því gjörningaveðri sem geisað hefur hér á landi í kjölfarið, þá erum við rækilega minnt á hversu fljótt hin efnahagslega loftvog getur fallið. Eftir langa góðviðriskafla og marga milda vetur hættir okkur til að gleyma því að slíkt veðurfar varir ekki að eilífu. Við látum undir höfuð leggjast að búa okkur undir kröppu lægðirnar sem alltaf koma – freistumst til að halda að veðurkerfið hafi breyst með varanlegum hætti.

Nú eru veður válynd í fjármálakerfi heimsins. Það má með kannski segja að almannavarnarkerfið hafi verið ræst – það sé ákveðin vá fyrir dyrum. Við slíkar aðstæður skiptir þrennt líklega mestu máli.

Í fyrsta lagi að grunngerðin sé traust og innviðir samfélags og efnahagslífs geti því staðist talsvert álag. Sú er raunin á Íslandi. Það er öflug framleiðslustarfsemi, ríkissjóður stendur vel og fjármálastofnanir landsins standast fyllilega samanburð við fjármálastofnanir í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Í öðru lagi þurfa að vera til þær bjargir í landinu að við getum staðist áhlaup sem stendur nokkurn tíma – þar vantar nokkuð upp á enda hefur gjaldeyrisforði landsins ekki verið byggður upp í samræmi við aukin umsvif íslenskra fjármálastofnana og krónan er ekki sterkur gjaldmiðill. Á vegum ríkisstjórnar og Seðlabanka er nú unnið að því að treysta þessar bjargir enda erum við staðráðin í því að standast áhlaupið.

Í þriðja lagi skiptir miklu máli að íslenskt hagkerfi njóti trausts og íslenskt viðskiptalíf hafi trúverðugleika. Traust ímynd er hverri þjóð gríðarlega mikilvæg á tímum hnattvæðingar þar sem viðskiptavinir eru dreifðir út um allan heim og þ.a.l. oft fjarri uppruna þeirrar vöru eða viðskipta sem þeir eiga svo mikið undir. Þessa ímynd þurfum við að styrkja og koma henni á framfæri erlendis með samræmdum og sannfærandi hætti og af mikilli festu.

Það liggur fyrir að íslensku bankarnir hafa sýnt meiri varkárni í umgengni sinni við hina vafasömu skuldabréfavafninga sem hafa kostað fjármálakerfi heimsins ómælda verki á undanförnum vikum og mánuðum. Samt verða íslensku bankarnir fyrir harðvítugra áhlaupi en flestir aðrir bankar. Fyrir því eru ýmsar ástæður en ein er sú að það er auðvelt að dreifa neikvæðum áróðri um íslensku bankana vegna þess að þekking á íslensku efnahagslífi er mjög lítil víða og þar sem þekkinguna skortir er góður jarðvegur fyrir fordóma. Þekkingarleysi og óvild geta og hafa gert okkur erfitt fyrir.

Við höfum séð að ímynd og orðspor þjóðarinnar getur breyst hratt með neikvæðri og ónákvæmri umfjöllun. Slíka umfjöllun er erfitt að leiðrétta og getur áhrifa hennar gætt lengi. Því er afar mikilvægt að bregðast hratt við og koma réttum upplýsingum umsvifalaust á framfæri. Þeim mun brýnna er að bæði stjórnvöld og bankarnir standi ímyndar- og upplýsingavaktina saman.

Það er einmitt þess vegna sem ríkisstjórnin hefur að undanförnu, í góðu samstarfi við viðskiptalífið, unnið að því upplýsa umheiminn um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Mér er til efs að utanríkisráðuneytið og sendiráðin hafi nokkurn tímann unnið jafn þétt með bönkunum og síðustu mánuði.

Opinber heimsókn mín til Kaupmannahafnar nú í mars var liður í þessari viðleitni, en þá var haldinn sérstakur fundur með fulltrúum úr atvinnulífinu og blaðamönnum um stöðu íslensks efnahagslífs. Á fundinn komu fulltrúar flestra fjölmiðla sem mest hafa fjallað um íslenskt efnahagslíf í Danmörku. Þrátt fyrir nokkuð sérkennilegan fréttaflutning hér heima af þessari heimsókn er mér tjáð að hún hafi hafi fengið meiri og jákvæðari athygli fjölmiðla í Danmörku en heimsóknir íslenskra ráðamanna þangað um langt árabil. Reyndar var markmiðið með fundinum og þeim samtölum sem ég átti við fjölmiðlamenn ekki að búa til fréttir eða fyrirsagnir í dönsku blöðunum heldur ná góðu sambandi við þá sem neikvæðastir voru fyrir og fá þá til að skilja samhengi hlutanna á Íslandi.

Er skemmst frá því að segja að minna hefur borið á atlögum að íslenskum fyrirtækjum og íslensku efnahagslífi í Danmörku eftir heimsóknina. Svipaða sögu er hægt að segja af heimsókn Geirs Haarde forsætisráðherra til New York í sömu viku og ég fór til Danmörkur.

Sýnir þetta svart á hvítu hversu mikilvægt það er að huga vel að þessum kynningarmálum. Við þurfum að rækta fjölmiðlafólk og þá aðila sem eru skoðanamyndandi á lykilmörkuðum. Það er langtímaverkefni sem krefst þolinmæði og eljusemi en sú fjárfesting skilar sér margfalt.

Í morgun var ég á blaðamannafundi í Listasafni Reykjavíkur þar sem ímyndarnefndin svokallaða, undir stjórn Svöfu Grönfeld, skilaði niðurstöðum sínum. Nefndin var sett á laggirnar til þess að gera úttekt á ímyndarmálum Íslands, móta stefnu og leggja fram tillögur að skipulagi ímyndarmála hér á landi. Skýrslan er afar viðamikil og á nefndin hrós skilið fyrir vel unnið starf.

Er það m.a. niðurstaða hennar að nauðsynlegt sé að bæta skipulag ímyndar- eða landkynningarmála, samræma þurfi aðgerðir, skilgreina ábyrgð og verja meiri fjármunum í málaflokkinn. Nefndin leggur til að þetta verði gert í nánu samstarfi allra þeirra sem nú þegar sinna þessu kynningarstarfi og að komið verði á fót miðlægum samræmingaraðila sem nefndin kallar Promote Iceland. Jafnframt skuli það vera hlutverk þessa aðila að fylgjast með þróun ímyndar landsins, miðla upplýsingum og bregðast við neikvæðri umfjöllun sem snertir íslenska hagsmuni.

Lagt er til að svæðisskrifstofur Ferðamálaráðs í Frankfurt, Kaupmannahöfn og New York verði lagðar niður í núverandi mynd og sú starfsemi kynnt annarri kynningarstarfsemi á vegum stjórnvalda í viðkomandi borgum. Iðnaðarráðherra hefur reyndar fyrir sitt leyti lýst því yfir að hann vilji eiga meira samstarf við utanríkisþjónustuna um landkynningarmál en verið hefur.

Ég fagna þessum tillögum nefndarinnar og vona að starf hennar flýti nauðsynlegri einföldun stjórnskipulags þessara mála. Burtséð frá því hvernig endanleg útfærsla á hugmyndum nefndarinnar mun líta út er ljóst að ráðuneyti utanríkisviðskiptamála með sitt margvíslega samstarf – formbundið sem óformlegt - við önnur ráðuneyti, útrásarfyrirtæki og menningarfrumkvöðla, mun áfram leika lykilhlutverk í ímyndaruppbygginu Íslands á erlendum vettvangi.

Utanríkisráðuneytið mun fyrir sitt leyti bregðast við ofangreindum óskum um meiri skilvirkni og hyggst á árinu einfalda stjórn þessara mála innan sinna vébanda með því að sameina skrifstofu menningar- og upplýsingamála og skrifstofu viðskiptaþjónustu og ferðamála (VUR). Þá verður starfssvið viðskiptafulltrúanna, sem eru 10 talsins, skerpt og það með skýrari hætti látið ná til menningar-, landkynningar- og ímyndarmála.

Það er mín skoðun að í samræmingunni eigi Útflutningsráð að leika aukið hlutverk. Ráðið hefur eflst á undanförnum árum og þá einkum og sér í lagi eftir að samstarfið við utanríkisráðuneytið var aukið. Enn á eftir að ákveða hvar verkefnið Promote Iceland verður vistað. Ég tel að vel geti komið til greina að fela Útflutningsráði þetta verkefni. Það myndi hins vegar kalla á víðtæka endurskoðun á stjórnskipulagi og starfsemi Útflutningsráðs, þar sem fleiri ráðuneyti en utanríkisráðuneytið þyrftu að koma að stjórninni og tryggja yrði  breiðari þátttöku atvinnulífsins en nú tíðkast.

Með því að vinna markvisst að því að styrkja og efla ímynd lands og þjóðar fjölgum við sóknarfærum fyrir íslensk fyrirtæki og athafnaskáld, sköpum ný tækifæri fyrir unga fólkið okkar og rennum styrkari stoðum undir efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar. Með því að   gefa ímyndarmálum sérstakan gaum styrkjum við stöðu Íslands í samkeppni þjóðanna um fjárfestingar, ferðamenn, neytendur, virðingu og ekki síst athygli umheimsins.

  Ég hlakka til þess að taka þátt í þessari sameiginlegu vegferð okkar og er sannfærð um að ef við leggjumst öll á eitt til að ná skýrum markmiðum verður útkoman glæsileg og allri þjóðinni til góða.

Kæru fundarmenn.

Fundurinn í dag fjallar um landvinninga íslenskrar verslunar, sem hafa verið umtalsverðir á undanförnum árum. Verslunin hefur ekki einvörðungu dafnað og styrkst hér heima heldur færst út fyrir landsteinana í síauknum mæli. Þekking og útsjónarsemi íslenskra kaupmanna er í raun orðin dýrmæt útflutningsvara.

 Það er hollt fyrir okkur að hafa í huga að forsenda fyrir þessari útrás eru hagstæð viðskiptakjör í Evrópu sem grundvallast á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.

 Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan danska einokunarverslunin var við lýði hér á landi á 17. og 18. öld.  Á þeim tíma gátu Íslendingar hvorki valið við hverja þeir versluðu né þær vörur sem vildu kaupa. Danskir kaupmenn höfðu stjórn íslenskrar verslunar með höndum án aðkomu Íslendinga. Við vitum öll hvernig það fyrirkomulag lagði þunga fjötra á þjóðina, kom í veg fyrir að auður myndaðist í landinu og girti þar með fyrir alla fjárfestingu í atvinnuvegum landsmanna. Skortur á verslunarfrelsi kom í veg fyrir allar framfarir og hindraði hagsæld alltof langan hluta Íslandssögunnar.

Eftir að einokunarverslunin var lögð af  1786 tók það Íslendinga þó nokkurn tíma að komast í þá aðstöðu að þeir gætu nýtt sér hið nýfengna frelsi í sína þágu.

Uppúr aldamótum 1900 voraði hins vegar í brjósti menningarþjóðarinnar sem fékk sjálfsforræði í byrjun 20. aldarinnar. Aðgengi að erlendu fjármagni jókst með stofnun Íslandsbanka 1904 og þá fóru hjólin fyrir alvöru að snúast. Ör þróun einkenndi fyrstu tvo áratugi síðustu aldar og má segja að Ísland hafi tekið stórt skref frá miðaldaríki í átt til nútímaríkis á þessum árum.

Nokkrum árum síðar tók við skortur á gjaldeyri og mikil verðbólga, að ógleymdri heimskreppunni, sem leiddu til hinnar miklu haftastefnu sem einkenndi íslenska verslun allt til valdatíma Viðreisnarstjórnarinnar sem tók við árið 1959.

Þetta voru afleitir tímar fyrir íslenska verslun og þar með íslenskt efnahagslíf en beint samhengi er þar á milli. Svo til öll milliríkjaviðskipti voru háð opinberum leyfum. Bílainnflutningur var háður leyfum allt til 1960, kirkjuorgel voru svo til einu hljóðfærin sem mátti flytja inn og ávexti gat fólk einungis orðið sér úti um gegn lyfseðli. Matseðill þjóðarinnar var í raun ákveðinn af svokölluðu Fjárhagsráði, sem hafði það líka í hendi sér hverjir kæmust til útlanda og hvaða erlendar bækur landsmenn pöntuðu sér, en auðvitað var það ekkert annað en gróf takmörkun á rit- og ferðafrelsi þjóðarinnar.

Hið opinbera tók ekki aðeins ákvörðun um hvað skyldi flytja inn, heldur einnig hverjir. Allt gekk út á góð sambönd á æðri stöðum, brask með innflutningsleyfi og valdbeitingu. Klíkuskapurinn var allsráðandi, viðskiptasiðferði sljógvaðist og spilling jókst. Þjóðlífið mengaðist og varð óheilbrigt

Haftastefnan skilaði ekki tilætluðum árangri og það var ekki fyrr en með auknu frjálsræði að líf fór að glæðast í íslenskri verslun á ný. Aðgerðir viðreisnarstjórnar Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks skiptu þarna sköpum og voru upphafið að þeirri viðskiptastefnu sem við þekkjum í dag. Afleiðingarnar voru ekki einungis mældar í krónum og aurum heldur einnig í betra og heilbrigðara andrúmslofti í þjóðfélaginu.

Ég tel hollt að halda þessu til haga vegna þess að sagan sýnir að stjórnlyndir pólitíkusar og hagsmunahópar eru og verða alltaf til staðar.

Þrátt fyrir að við höfum gengið götuna til góðs í átt til frjálsari viðskiptahátta á undanförnum áratugum og okkur finnist áðurnefnd dæmi ef til vill brosleg, þá eru enn til þær greinar í íslensku atvinnulífi sem búa við höft og skort á verslunarfrelsi.

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir rúmri viku síðan áréttaði ég það stefnumið ríkisstjórnarinnar að draga úr óbeinni skattheimtu með lækkun tolla og vörugjalda. Nefndi ég í því sambandi að ég teldi tímabært að skoða verulega tollalækkun á fugla- og svínakjöt sem hefur ekki nema óbein áhrif á afkomu bænda en skiptir verulegu máli fyrir heimilin í landinu.

Það er skemmst frá því að segja að ég hef fengið ákaflega jákvæð viðbrögð við þessu úr ólíklegustu áttum, m.a. frá Heimdalli félags ungra Sjálfstæðismanna. Neikvæðar raddir hafa heyrst frá bændaforystunni eins og við var að búast.

Okkur stjórnmálamönnunum ber fyrst og fremst að gæta almannahagsmuna. Við verðum að ræða opinskátt um hlutina eins og þeir koma okkur fyrir sjónir.

Við getum ekki látið eins og rödd neytenda sé ekki til.

Að mínu viti er ekki réttlætanlegt halda uppi tollmúrum á pasta, kjúklingum og svínakjöti til þess að halda uppi verði á lambakjöti, sem nýtur hárrar tollverndar, framleiðslustyrkja, býr við útflutningsskyldu og er markaðssett á erlendri grundu fyrir ríkissfé.

Við getum heldur ekki leyft okkur að semja við Evrópusambandið um svokallaða núllkvóta á innflutningi til landsins en boðið þá síðan út fyrir stórfé og einkavætt þannig í raun tollákvörðunina, neytendum og viðsemjendum okkar til mikillar armæðu. Ég mun beita mér fyrir því að tollfríðindi af þessu tagi skili sér beint í vasa almennings.

Sumir segja að ekki sé á vanda bænda bætandi – hann sé ærinn fyrir.

Vissulega glíma bændur við margvíslega sigurvagna. En ég held ekki að aukinn innflutningur á hvítu kjöti muni ráða úrslitum fyrir íslenskan landbúnað. Ég hef tröllatrú á íslenskum landbúnaði og þeirri gæðavöru sem íslenskir bændur framleiða.  Íslenska lambakjötið er það besta og heilnæmasta í heimi og Íslendingar myndu ekki snúa við því bakinu þó samkeppni myndi aukast. Sömu sögu er að segja um mjólkurafurðirnar. Ég hef miklu meiri trú á íslenskum bændum og matvælaframleiðendum en svo að þeir verði undir í samkeppninni. Vöruþróun mun eflast, vöruúrval aukast og inniviðirnir styrkjast. Ég er þess fullviss að sömu lögmál gilda í landbúnaði og í öðrum atvinnugreinum.

Vandi íslenska bænda eru eftirlegukindurnar sem verða að lokum þrælar þess staðnaða kerfis sem þeir hafa sjálfir tekið þátt í að byggja upp og verið með kjafti og klóm.

Þessu hafa Svisslendingar gert sér grein fyrir en þeir hafa búið við svipað kerfi og Íslendingar og þeirra landbúnaður notið sambærilegrar verndar. Þeir hyggjast nú gjörbylta kerfi sínu með því að semja um fulla fríverslun við ESB. Hefja þeir viðræður að öllum líkindum um mitt þetta ár og hyggjast ljúka þeim á tveimur til fjórum árum. Þeir opnuðu fyrir fulla fríverslun á ostum fyrir tæpu ári og hefur útflutningur þeirra núna aukist um 15%. Fyrir 15 árum opnuðu þeir fyrir frjálsan víninnflutning og síðan það gerðist hafa gæði svissnesks vín snaraukist og víniðnaðurinn þar stendur sterkari stoðum enn nokkru sinni fyrr. Hugarfar margra svissneskra bænda hefur breyst með aukinni samkeppni og trú þeirra á eigið ágæti og getu hefur aukist eftir því sem árangur þeirra hefur orðið meiri.

Ég mun fylgjast grannt með þróuninnni í Sviss og tel okkur geta lært mikið af hinum suðrænu vinum okkar í EFTA.

 Góðir fundarmenn.

Það er beint orsakasamhengi á milli blómlegrar og frjálsrar verslunar og hagsældar. Frjáls verslun greiðir fyrir sérhæfingu, stuðlar að aukinni samkeppni og bestri nýtingu náttúruauðlinda og hugvits.

Í upphafi ræðu minnar gerði ég grein fyrir því hvernig sjálfstæðishetjur okkar fyrir 150 árum síðan töldu Dani ekki getað svipt okkur verslunarfrelsinu og það væri samofið lýðræðinu. Jón Sigurðsson hafði þá framsæknu skoðun á þeim tíma að því frjálsari sem verslunin yrði því hagsælli yrði hún þjóðinni. Þessi boðskapur Jóns hefur margsannað gildi sitt. En það er enn brekka eftir. Ég vona að hún sé ekki mjög löng.

 

 



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics