Hoppa yfir valmynd

Þörf á sameiginlegu átaki allra þjóða - grein birt í dagblaðinu Degi

5. maí 1998

Grein utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar
ÞÖRF Á SAMEIGINLEGU ÁTAKI ALLRA ÞJÓÐA
Birt í dagblaðinu Degi

Mannkynið stendur nú frammi fyrir mörgum vandamálum, sem ekki verða leyst nema með sameiginlegu átaki allra þjóða. Má þar nefna umhverfismengun, sem þekkir engin landamæri, vímuefnavandann, rányrkju á auðlindum jarðar, vanþróun og misrétti. Þótt fátækt, sjúkdómar og aðrar hörmungar herji aðallega á þróunarríkin, getur margskonar vá knúið dyra hjá þjóðum, sem nú njóta velmegunar. Við upphaf nýrrar aldar er mikilvægi Sameinuðu þjóðanna æ augljósara, því aðeins á vettvangi þeirra geta þjóðir heims, sem búa við mismunandi aðstæður, fundið leiðir til úrbóta, sem eru öllum í hag. Við Íslendingar getum ekki skorast úr leik í þessum efnum.

Þátttakan í starfi Sameinuðu þjóðanna hefur verið Íslandi afar mikilvæg, ekki síst til að tryggja yfirráð yfir auðlindum sjávar umhverfis landið. Því miður getum við ekki tekið þátt í öllum þeim verkefnum, sem samtökin standa að, og vert væri að sinna. Íslendingar hafa því reynt að beina kröftum sínum innan Sameinuðu þjóðanna að þeim verkefnum, sem brýnust eru í starfi þeirra og þar sem framlag okkar skiptir mestu máli. Í samræmi við það tók Ísland fyrir nokkrum árum sæti í nefnd um sjálfbæra þróun, sem heyrir undir Efnahags- og félagsmálaráð samtakanna (ECOSOC), og beitti sér sérstaklega fyrir málefnum hafsins og vörnum gegn mengun sjávar.

Þáttaka í ECOSOC styrkir stöðu Íslands innan S.þ.
Einnig var ákveðið að sækjast eftir kjöri til Efnahags- og félagsmálaráðsins, til að styrkja stöðu Íslands innan Sameinuðu þjóðanna með nánara samstarfi við ríki, sem eiga sömu hagsmuna að gæta, t.d. varðandi stefnumörkun á sviði hafréttarmála. Þátttaka í ráðinu gefur okkur góða möguleika til að láta til okkar taka í ýmsum hagsmunamálum okkar, en fyrst og fremst veitir hún tækifæri til styrkja framlag Íslands til helstu velferðarmála alls mannkyns. Ákvörðun um framboð til ráðsins tengdist einnig umræðum um breytingar á samvinnu Norðurlanda innan Sameinuðu þjóðanna, í kjölfar inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í ESB, og þörfinni á því að við Íslendingar styrktum alþjóðlega stöðu okkar vegna hinna miklu breytinga sem nú eiga sér stað í alþjóðastjórnmálum.

Ísland fékk sæti í ráðinu í ársbyrjun í fyrra og heldur því til ársloka 1999. Frá upphafi aðildar að Sameinuðu þjóðunum höfum við aðeins einu sinni áður átt sæti í Efnahags- og félagsmálaráðinu, en það var á árunum 1985-1987. Fimmtíu og fjögur ríki sitja í ráðinu á hverjum tíma.

Þótt Efnahags- og félagsmálaráðið sé ein af höfuðstofnunum Sameinuðu þjóðanna, hefur það að mörgu leyti fallið í skuggann af þekktari stofnunum samtakanna, eins og allsherjarþinginu og öryggisráðinu. Í stuttu máli vinnur ráðið í anda sáttmála S. þ. um alþjóðasamvinnu í efnahags- og félagsmálum (55. gr.), einkanlega hvað snertir að bæta lífskjör, tryggja atvinnu, stuðla að félagslegri þróun og umhverfisvernd, heilbrigði, sinna menningar- og menntunarmálum og mannréttindum og finna lausn á vandamálum er lúta að þessu. Ráðið fylgist einnig með framkvæmd niðurstaðna hinna alþjóðlegu stórráðstefna, sem haldnar hafa verið á vegum samtakanna á undanförnum árum.

Af þessu má ráða að starfsemi ráðsins er afar umfangsmikil. Undir það falla fjölmargar nefndir og sérfræðingahópar um efnahags- og félagsmál og flestar sérstofnanir samtakanna heyra stjórnskipulega undir ráðið. Það kemur m.a. í hlut ráðsins á hverjum tíma að kjósa stjórnarnefndir mikilvægra stofnana, eins og Rannsóknar- og þjálfunarstöðvar kvenna, Barnarhjálparinnar, Þróunaráætlunar S.þ., Umhverfismálaáætlunarinnar, Fólksfjöldaáætlunarinnar, Alþjóðamatvælaáætlunarinnar, Alþjóðamatvælaráðsins, Alþjóðlegu fíkniefnavarnarnefndarinnar og Eyðnivarnaráætlunar S.þ.

Skynsamleg nýting lifandi auðlinda sjávar mikilvæg fyrir fæðuöryggi alls heimsins

Á árfundi ráðsins sl. sumar voru þróunarmál, aðallega með tilliti til fjármagnsflæðis, fjárfestinga og viðskipta, eitt meginviðfangsefnið. Í umræðunum lögðum við áherslu á nauðsyn þess að skapa í þróunarríkjunum hagstætt umhverfi fyrir þróunarsamstarf, eðlilega starfsemi fyrirtækja og afnám verslunarhafta, samhliða uppbyggingu á sem flestum sviðum samfélagsins, m.a. í mennunarmálum, heilsugæslu, félagslegri þjónustu og jafnréttismálum. Í þessu sambandi vöktum við Íslendingar sérstaklega athygli á mikilvægi skynsamlegrar nýtingar lífrænna auðlinda sjávar og þýðingu hennar fyrir fæðuöryggi í heiminum, ekki síst fyrir þróunarlöndin.
Íslensk stjórnvald munu áfram aðstoða þróunarríkin til sjálfshjálpar, eins og síðustu ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um aukin framlög til þróunarmála vera vott um. Áhersla verður lögð á þau svið, þar sem við búum yfir sérþekkingu, eins og í fiskiðnaði, jarðhita og tækni. Á síðustu misserum hafa verið teknar ýmsar aðrar ákvarðanir til að styrkja þróunarstarf Íslands, t.d. stofnun Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi, ný verkefni Þróunarsamvinnustofnunar, framlag til Bosníuaðstoðar, einkanlega á sviði heilbrigðismála, og þátttöku í þróunarnefnd Alþjóðabankans.

Áhugi í þróunarlöndum á Sjávarútvegsskólanum
Í umræðum um málefni Háskóla Sameinuðu þjóðanna gerðum við grein fyrir helstu þáttum í starfsemi hins nýja Sjávarútvegsskóla, sem tekur til starfa síðar á árinu. Rektor Háskóla S.þ., Heitor Gurgulino de Souza, þakkaði Íslendingum fyrir góða samvinnu við skólann og ákvörðun um að efna til starfsemi Sjávarútvegsskóla á Íslandi, til viðbótar við starfsemi Jarðhitaskólann, sem starfað hefur hér á landi síðan 1979. Þegar hefur komið fram mikill áhugi á starfsemi Sjávarútvegsskólans í ýmsum þróunarlöndum, enda mun starfsemi hans gefa fólki frá þessum löndum ómetanlegt tækifæri til að öðlast menntun og reynslu á öllum sviðum sjávarútvegs, í veiðum jafnt sem markaðssetningu.

Ísland á sæti í nefnd um endunýjanlega orkugjafa
Orkumál og möguleikar á nýtingu endurnýjanlegrar orku eru að verða æ mikilvægara mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á ársfundi Efnahags- og félagsmálaráðsins í sumar gafst tækifæri til að upplýsa um orkumál Íslendinga, möguleika á nýtingu orku hér á landi og þá þekkingu sem við höfum aflað okkur á sviði endurnýjanlegrar orku. Í fyrravor var fulltrúi Íslands kosinn í sérfræðinganefnd um nýja og endurnýjanlega orkugjafa í þágu þróunar, sem er ráðgefandi gagnvart ECOSOC. Fram eru komnar hugmyndir um að halda heimsráðstefnu um orku fyrir 21. öldina um aldamótin og er mikilvægt fyrir Íslendinga að fylgjast vel með þessu starfi. Þátttaka í orkunefndinni styrkir einnig starf Íslands að orkumálum, tækniþekkingu til útflutnings og viðskiptum á því sviði. Nefndin fjallar m.a. um tengsl orku og verndunar andrúmsloftsins og sjálfbæra orku í þróunaraðstoð. Talið er að um tveir milljarðar manna í þróunarríkjunum hafi ekki aðgang að raforku og hamlar það framförum á sviði efnahags- og félagsmála. Undir ECOSOC starfar einnig og nefnd um náttúruauðlindir. Hún er m.a. ráðgefandi um nýtingu vatns, en ferskvatnsvandamál eru eitt viðkvæmasta vandamálið í þróunarlöndunum.

Vernd mannréttinda er forgangsatriði
Innan ráðsins lætur Ísland einnig til sín taka í umræðum um mannréttindamál. Við leggjum áherslu á að vernd mannréttinda er forgangsatriði og að öllum ríkjum beri skylda til að styrkja grundvallarréttindi. Mikilvægt er að halda þessum málflutningi áfram, ekki síst með það í huga að í ár er þess minnst að 50 ár eru liðin frá samþykkt mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Í þessu sambandi má geta þess, að innan Mannréttindaráðsins, sem er ein af starfsnefndum ECOSOC og fjallar um alþjóðlega mannréttindasamninga og meint brot gegn ákvæðum þeirra, hefur Ísland gerst aðili að fjölmörgum ályktunum um mannréttindabrot í einstökum ríkjum.

Við leggjum áherslu á réttindabaráttu kvenna og nauðsyn þess að veita jafnréttisbaráttunni lið á alþjóðavettvangi. Réttindi barna eru einnig verðugt viðfangsefni, sem mikilvægt er að leggja lið á vettvangi ECOSOC, auk þess sem tækifæri gefst til að sinna betur málefnum fatlaðra, aldraðs fólks og æskunnar á alþjóðavettvangi.

Fjölmörg málefni koma til kasta ráðsins og er rétt að beina kröftunum að því sem mestu máli skiptir. Má þar nefna starfi þess að fíkniefnavörnum. Íslendingar þurfa að sinna meira alþjóðlegu starfi að þessu, ekki síst með fyrirhugað aukaallsherjarþing S.þ. í júní nk. um fíkniefnavandann í huga, og leitast við að tengja það átaki gegn vímuefnaneyslu á Íslandi á meðal ungs fólks. Þess má geta að fíkniefnanefnd S.þ. er ráðgefandi gagnvart ECOSOC um fíkniefnavarnir. Henni er meðal annars ætlað að fylgjast með útfærslu alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar á þessu sviði og framvindu alþjóðlegs áratugar gegn fíkniefnamisnotkun 1991-2000.

Það er von mín að þetta yfirlit gefi nokkra hugmynd um hið víðtæka starf Efnahags- og félagsmálaráðsins. Árangurinn af fyrsta starfsári Íslands í ráðinu er okkur hvatning til frekari verka á þessum vettvangi innan Sameinuðu þjóðanna. Á þann hátt nýtum við þá möguleika, sem alþjóðasamstarf Sameinuðu þjóðanna veitir í þágu landsmanna, og leggjum jafnframt fram okkar skerf til velferðarmála alls mannkyns.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics