Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherrar Íslands og Japans ræddu norðurslóðamál

Guðlaugur Þór Þórðarson og Taro Kono á fundi sínum í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Málefni norðurslóða, fríverslun og loftferðamál voru til umræðu á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Taro Kono, utanríkisráðherra Japans, á Keflavíkurflugvelli í morgun. 

Taro Kono, utanríkisráðherra Japans, var hér á landi í tilefni af Hringborði norðurslóða í Hörpu en hann er fyrsti utanríkisráðherra Japans sem heimsækir Ísland. Áður en hann hélt af landi brott í morgun hittust þeir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fundi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. 

„Við Kono hittumst í Tókýó fyrr á þessu ári og nú tókum við upp þráðinn aftur þar sem frá var horfið. Við ræddum viðskiptamál, ekki síst möguleika á fríverslun og loftferðasamningi sem við munum áfram vinna að. Þá eru málefni norðurslóða mjög í brennidepli og sífellt meiri áhugi á þessum heimshluta, meðal annars af hálfu Japans," sagði Guðlaugur Þór að loknum fundi.

Ísland tekur við formennsku í Norðuskautsráðinu í febrúar en Japan hefur átt áheyrnaraðild að ráðinu frá 2013. Guðlaugur Þór ræddi meðal annars útlínurnar í formennsku Íslands þar sem sjálfbærni verður leiðarljós og málefni hafsins, loftslagsmál og nýting endurnýjanlegra orkugjafa og efnahagsleg og félagsleg þróun á svæðinu munu bera hæst. Þá fóru þeir Guðlaugur Þór og Kono yfir ástand og horfur í alþjóðamálum, meðal annars stöðuna á Kóreuskaga.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics