Hoppa yfir valmynd

Nr. 027, 28. apríl 2000. 56. þing Mannréttindaráðs Sameinuðu Þjóðanna.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 027


Fimmtugasta og sjötta þingi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (Commission of Human Rights), sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur, lýkur í Genf í dag. Í Mannréttindaráðinu eiga sæti 53 ríki, sem kosin eru af Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) til þriggja ára í senn. Af hálfu Norðurlanda á Noregur nú sæti í ráðinu.
Á þingi Mannréttindaráðsins er fjallað um stöðu og þróun alþjóðlegra mannréttindamála, mannréttindi í einstökum löndum og réttindi ákveðinna þjóðfélagshópa. Málflutningur ríkisstjórna, alþjóðasamtaka svo og félagasamtaka í Mannréttindaráðinu miðast nú við að mannréttindi séu algild og á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls. Efling mannréttinda er órjúfanlegur hluti af starfi Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar og öryggis.
Á þinginu voru fluttar þrjár norrænar ræður, þ.e. um málefni frumbyggja, mannréttindi fatlaðra og mannúðarlög. Norræn ályktunartillaga um vettvang fyrir frumbyggja innan Sameinuðu þjóðanna var ennfremur samþykkt á þinginu. Auk þess var af hálfu Íslands flutt ræða um mannréttindi kvenna, sbr. fréttatilkynningu ráðuneytisins nr. 21, 10. apríl 2000.
Á þinginu var Ísland meðflytjandi að 39 ályktunartillögum sem fjölluðu m.a. um afnám dauðarefsingar, aftökur, baráttu gegn pyntingum, afnám alls ofbeldis gegn konum, réttindi minnihlutahópa, afnám hvers kyns fordóma gagnvart trúarbrögðum, réttindi barnsins, mannréttindi fatlaðra, alþjóðlega mannréttindasamninga, verjendur mannréttinda, mannúðarlög og um landnám Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum. Jafnframt var Ísland meðflutningsaðili að sérstökum ályktunartillögum um stöðu mannréttinda í Tsjetsjníu og í eftirfarandi ríkjum: Sambandslýðveldinu Júgóslavíu, Króatíu og Bosníu og Hersegóvínu, Írak, Íran, Kambódíu, Kongó lýðveldinu, Kúbu, Myanmar, Sierra Leone og Súdan. Þingið samþykkti einnig samhljóða ályktanir formanns ráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan og á Austur-Tímor.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 28. apríl 2000.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics