Hoppa yfir valmynd

Nr. 036, 28. apríl 1998: Fimmtugasta og fjórða þing Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu




Nr. 36


Fimmtugasta og fjórða þing Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (UN Commission on Human Rights) fór fram í Genf 16. mars til 24. apríl. Í Mannréttindaráðinu eiga sæti 53 ríki, sem kosin eru af Efnahags- og félagsmálaráðinu (ECOSOC) til þriggja ára í senn. Af hálfu Norðurlandanna á Danmörk nú sæti í ráðinu. Ísland er áheyrnaraðili að ráðinu en hefur ekki atkvæðisrétt.

Á þinginu er fjallað um stöðu og þróun alþjóðlegra mannréttindamála, mannréttindi í einstökum löndum og réttindi ákveðinna þjóðfélagshópa.

Norðurlöndin beittu sér fyrir ýmsum tillögum á þinginu. Noregur var meginflutningsaðili að ályktunartillögu um lágmarks mannúðarmörk (minimum humanitarian standards), alþjóðamannréttindasamninga, svo og rétt einstaklinga og hópa til að efla og verja alþjóðlega viðurkennd mannréttindi. Danmörk var meginflutningsaðili að ályktunartillögu um vettvang fyrir frumbyggja innan Sameinuðu þjóðanna. Fyrir hönd Norðurlandanna flutti Jónathan Motzfeld, formaður heimastjórnar Grænlands, ræðu í umræðunum um þá tillögu. Einnig var Danmörk meginflutningsaðili að ályktunartillögu um baráttuna gegn pyntingum. Fyrir hönd Norðurlandanna flutti fulltrúi Svíþjóðar ræðu um fjöldafólksflutninga og fólk á vergangi, og fulltrúi Noregs flutti norræna ræðu um lágmarks mannúðarmörk.

Ísland var meðflytjandi að ályktunartillögum um mannréttindi í einstökum löndum, þ.e. Afghanistan, Burma (Myanmar), Írak, Íran, Lýðræðislega lýðveldinu Kongó (fyrrum Zaire), Nígeríu og Súdan. Ísland gerðist einnig meðflutningsaðili að ályktunartillögu um mannréttindi á Kúbu, en hún var felld í atkvæðagreiðslu með 19 atkvæðum gegn 16.

Þingið samþykkti einnig samhljóða yfirlýsingu formanns (S.-Afríka) um stöðu mannréttinda í Alsír, á Austur-Tímor og í Kósovó.



Ísland var einnig meðflytjandi að ályktunartillögum um dauðarefsingu, um aftökur, um hernumdu svæðin, um afnám alls ofbeldis gagnvart konum, um réttindi minnihlutahópa, um mannréttindi fatlaðra, um réttindi barnsins, um alþjóðlega mannréttindasamninga, um yfirlýsingu um afnám hvers kyns fordóma gagnvart trúarbrögðum og um afnám pyntinga.

Á þinginu var samþykkt sérstök ályktunartillaga, sem Ísland var meðflytjandi að, í tilefni af 50 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og fylgir hún hjálagt.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 28. apríl 1998.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics