Hoppa yfir valmynd

Mennta- og menningarmál á Norðurlandaráðsþingi

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í dag fyrstu greinargerðina um menntasamstarf Norrænu ráðherranefndarinnar um lýðræði, öryggi og nám án aðgreiningar. Skýrslan fjallar um aðgerðir og árangur Norrænu ráðherranefndarinnar sem miða að því að bregðast við samfélagslegum áskorunum með lýðræðislegum hætti, efla lýðræðisvitund ungs fólks og koma í veg fyrir jaðarsetningu, mismunun og öfgahyggju.

„Efling lýðræðis, öryggis og menntun án aðgreiningar hafa verið í forgrunni í norrænu samstarfi um árabil og þar hefur margt áunnist, ekki síst þegar kemur að miðlun þekkingar, sameiginlegri færniþróun á norrænum vettvangi og sameiginlegum námsgöngum. Þá er samstarf okkar einnig mikilvægt þegar kemur að því að uppfæra stefnur, aðgerðir og rannsóknir á þessum sviðum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Þá kynnti ráðherra einnig greinargerð um norrænt tungumálasamstarf og eftirfylgni norrænu tungumálayfirlýsingarinnar. Fram kom að unnið er að nýrri samstarfsáætlun á því sviði sem taka mun gildi á næsta ári. Í framkvæmdaáætlun ráðherranefndarinnar árin 2021-2024 eru meðal annars sérstakar aðgerðir til að auka þekkingu barna og ungmenna á menningu og tungumálum.

Norðurlandaráðsþing er æðsta ákvörðunarvald norræna þingamannasamstarfsins þar sem ráðherrar og þingmenn koma saman til að ræða málefni Norðurlanda. Ísland gegnir formennsku í Norðurlandaráði um þessar mundir og er því gestgjafi þingsins, nefndarfundanna og verðlaunahátíðar Norðurlandaráðs. 

Í tengslum við árleg Norðurlandaráðsþing eru afhent menningar- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs og fer sú verðlaunahátíð fram með rafrænum hætti í kvöld. Fimm verðlaun eru veitt á hverju ári
: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og ungmennabókmenntaverðlaun. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi og samstarfi um umhverfismál og vekja athygli á verkum og verkefnum sem skarað hafa fram úr.

RÚV hefur veg og vanda að útsetningu verðlaunahátíðarinnar og hefst hún kl. 20:10 í kvöld.

Íslenskar tilnefningar til verðlaunanna eru að þessu sinni:
Barnabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur og Egill spámaður eftir Lani Yamamoto.
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Skáldsagan Lifandilífslækur eftir Bergsvein Birgisson og ljóðabókin Kláði eftir Fríðu Ísberg.
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs: Chernobyl eftir Hildi Guðnadóttur og tónverkið Lendh eftir Veronique Vöku.
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs: Kvikmyndin Bergmál í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar.
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures.

Nánar má lesa um tilnefningarnar á vef norræna samstarfsins - Norden.org.

Tags

4. Menntun fyrir öll

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics