Hoppa yfir valmynd

NATO Leiðtogafundur í Madrid

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


    Nr. 066

    Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins var haldinn í dag, 8. júlí, í Madríd. Davíð Oddsson, forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra sátu fundinn fyrir Íslands hönd.

    Á fundinum bar hæst stækkun bandalagsins og var tekin sú sögulega ákvörðun að bjóða Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi til aðildarviðræðna. Ákveðið var að stefna að undirritun aðildarbókunar á ráðherrafundi bandalagsins í desember og ljúka fullgildingarferlinu þannig að af fullri aðild geti orðið á 50 ára afmæli Washington samningsins í apríl 1999.

    Leiðtogarnir lögðu þunga áherslu á að bandalagið stæði áfram opið öðrum ríkjum. Þess er vænst að á komandi árum verði fleiri ríkjum boðin aðild, sem væru tilbúin og fær um að axla þá ábyrgð og skyldur sem aðild hefur í för með sér. Mun bandalagið því viðhalda nánu sambandi við þau ríki sem lýst hafa áhuga á aðild og einnig þau sem gætu óskað aðildar í framtíðinni.

    Leiðtogarnir vöktu athygli á jákvæðri framþróun í lýðræðisátt og bættu réttarkerfi í nokkrum ríkjum Suð-Austur Evrópu, sérstaklega Rúmeníu og Slóveníu. Þeir vöktu einnig athygli á þeim árangri sem náðst hefur í að auka stöðugleika og samvinnu þeirra ríkja á Eystrasaltssvæðinu sem einnig stefna að aðild að bandalaginu.

    Leiðtogarnir lögðu áherslu á mikilvægi Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins í því að styrkja öryggi og stöðugleika. Leiðtogarnir fögnuðu einnig ákvörðun ráðherrafundar NATO í Sintra í lok maí sl. að styrkja friðarsamstarf bandalagsins. Án friðarsamstarfsins hefði friðargæsluaðgerð IFOR, og síðar SFOR, í Bosníu verið illmöguleg.

    Lýst var yfir ánægju með nýgerðan sáttmála við Rússland og fagnað þeim möguleika að geta átt reglulegt samráð og samstarf við Rússland um margvísleg málefni, þ.m.t. á sviði hermála. Leiðtogarnir lýstu yfir mikilvægi sáttmála bandalagsins og Úkraínu sem undirritaður verður á morgun og töldu hann styrkja öryggi í Evrópu.

    Fagnað var þeim árangri sem náðst hefur varðandi innri aðlögun bandalagsins. Grundvallarmarkmið aðlögunarinnar er að viðhalda varnarmætti bandalagsins, hæfni þess til að takast á við aukin verkefni, öflugum tengslum yfir Atlantshafið og þróa frekar evrópsku öryggis- og varnarstoðina innan bandalagsins.

    Fastaráði bandalagsins var falið að vinna áfram að innri aðlögun þess með það að markmiði að ná samkomulagi um nýtt og skilvirkara fyrirkomulag herstjórnar NATO þegar ráðherrafundir verða haldnir í desember næstkomandi.

    Lýst var ánægju með nýlegt samkomulag innan Vestur Evrópusambandsins um þátttöku allra evrópskra bandamanna, ef þeir kjósa, í verkefnum undir stjórn VES sem nýta búnað og herstjórnarkerfi bandalagsins.

    Ákveðið var að stofna sérstaka nefnd um málefni Miðjarðarhafsins til að fara með framkvæmd viðræðna bandalagsins við Egyptaland, Ísrael, Jórdaníu, Máritaníu, Marokkó og Túnis. Stofnun nefndarinnar er ætlað að leggja áherslu á pólitískt mikilvægi þessara viðræðna í samræmi við þá afstöðu bandalagsins að öryggi í Evrópu sé nátengt öryggi á Miðjarðarhafinu.

    Ennfremur var ákveðið að endurskoða varnarstefnu bandalagsins í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í öryggismálum Evrópu undanfarin ár. Þeir létu einnig í ljósi þann ásetning sinn að efla enn frekar samstarf við Vestur-Evrópusambandið og að styrkja til muna starfsemi Öryggis- og Samvinnustofnunnar Evrópu.

    Leiðtogarnir ræddu ennfremur afvopnunarmál, hryðjuverk, og ástand mála í Albaníu. Sérstök yfirlýsing var gefin út varðandi Bosníu-Hersegóvínu og jafnframt var staðfest krafa um fulla framkvæmd friðarsamninganna. Var skorað á aðila friðarsamkomulagsins að framkvæma til fulls þær skuldbindingar sem þeir hefðu sjálfir samþykkt og virða í heild ákvæði friðarsamkomulagsins.

    Í yfirlýsingunni um Bosníu var ennfremur vikið sérstaklega að ábyrgð Króatíu og fyrrum Júgóslavíu. Lýst var yfir miklum áhyggjum með þróun mála innan lýðveldis Bosníu-Serba og þá vaxandi and-lýðræðislegu þróun sem þar á sér stað. Áréttað var sérstaklega að skilyrði fyrir áframhaldandi stuðningi við friðaruppbyggingu í Bosníu væri að allir aðilar virtu til fulls ákvæði friðarsamkomulagsins. Ennfremur var skorað á leiðtoga á svæðinu að sjá til þess að þeir sem ákærðir hafa verið fyrir stríðsglæpi verði framseldir til stríðsglæpadómstólsins í Haag.

    Lokayfirlýsing fundarins ásamt yfirlýsingu leiðtoganna varðandi Bosníu fylgja hjálagt.

    Utanríkisráðuneytið, 8. júlí 1997.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics