Hoppa yfir valmynd

Ýmis álitaefni uppi um lagalega stöðu rafmynta

Undanfarið hefur nokkuð verið fjallað um rafmyntir og kaup og sölu á þeim. Íslensk stjórnvöld vöruðu árið 2014 við þeirri áhættu sem fylgir rafmyntum eða sýndarfé (e. virtual/crypto currencies) svo sem Bitcoin.  Þá hefur Fjármálaeftirlitið sent frá sér tilkynningu þar sem varað er við þeirri miklu áhættu sem fylgir viðskiptum með sýndarfé.

Gildandi lög á Íslandi vernda neytendur ekki sérstaklega gegn tapi á rafmyntum, t.d. ef „markaðstorg“ sem skiptir eða varðveitir rafmyntir bregst skyldum sínum eða ef greiðsla misferst eða kemst í hendur óviðkomandi aðila. Handhafi rafmynta á ekki kröfu á útgefanda sambærilega því sem við á um peningaseðla og mynt, rafeyri, innlán og annars konar inneign á greiðslureikningi í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Óhindrað aðgengi að rafmyntum er alls ótryggt frá einum tíma til annars.

Ýmis álitaefni hafa verið uppi í tengslum við lagalega stöðu rafmynta, t.d. hvernig skuli greiða skatta af viðskiptum með þær. Jafnframt er til staðar gríðarleg óvissa um verðgildi rafmynta, enda hafa dæmin sýnt að gengi þeirra getur sveiflast mikið.

Á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) er náið fylgst með þróun rafmynta en enn liggja ekki fyrir drög að löggjöf um efnið þótt ýmsar tillögur og hugmyndir hafi komið fram. Sjá til dæmis álit Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um rafmyntir frá 2014 og þingsályktun Evrópuþingsins frá 2016 um sama efni. Hinn 18. apríl 2017 kynnti Evrópusambandið síðan áætlun sína um að stofna svokallað EU Blockchain Observatory til þess að byggja upp fræðilega og tæknilega þekkingu á blockchain tækninni, fylgjast með þróun og leggja til aðgerðir. 

Í Evrópu hefur verið stigið varlega til jarðar og ekki verið vilji til þess að setja á löggjöf sem gæti virkað hamlandi á framþróun. Ráðuneytið fylgist með þessari þróun og hefur almennt talið að æskilegt væri að Ísland fylgi þróun innan ESB og setji ekki séríslenskar reglur um rafmyntir.

Erfitt er að segja til um umfang rafmynta hér á landi, en ljóst er að töluvert er um gröft (e. mining) eftir rafmyntum í gagnaverum hér á landi. Með greftri er átt við að notaður sé reiknikraftur til að leysa flókin stærðfræðidæmi sem styrkir keðjuna (e. blockchain) og í staðinn fáist rafmyntir.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics