Hoppa yfir valmynd

Fundir utanríkisráðherra Norðurlandanna í tengslum við 54. þing Norðurlandaráðs

Nr. 119

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Utanríkisráðherrar Norðurlanda héldu fund í Helsinki í dag í tengslum við 54. þing Norðurlandaráðs. Þá áttu ráðherrarnir einnig fund með forsætisnefnd ráðsins. Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, sat fundina í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.

Á fundi utanríkisráðherranna var m.a. rætt um stöðu mála að loknum leiðtogafundi Evrópusambandsins sem haldinn var í Brussel í síðustu viku og áframhaldandi samráð Norðurlanda um málefni EES í tengslum við stækkun Evrópusambandsins og EES. Ráðherrarnir fögnuðu því að á grundvelli niðurstaðna leiðtogafundarins yrði Evrópusambandinu kleift að ljúka samningum um inngöngu 10 nýrra aðildarríkja á leiðtogafundi bandalagsins í Kaupmannahöfn í desember nk. Þá var rætt um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður í Prag í næsta mánuði og hafði Siv Friðleifsdóttir, umhvefisráðherra, framsögu um það mál í fjarveru utanríkisráðherra. Málefni Írak voru einnig til umfjöllunar svo og málefni Alþjóðasakamáladómstólsins og að lokum var fjallað um samskipti Evrópu og Bandaríkjanna almennt.

Á fundi utanríkisráðherranna með forsætisnefnd Norðurlandaráðs kynnti forsætisnefndin yfirlýsingu sína vegna hryðjuverkanna í Moskvu og lýsti yfir stuðningi við framgöngu danskra stjórnvalda í sambandi við fundahöld Tétsena í Danmörku og handtöku tétsenska leiðtogans Akhmed Zakajev í Kaupmannahöfn. Þá áttu forsætisnefndin og utanríkisráðherrarnir gagnleg skoðanaskipti um þróun hinnar Norðlægu víddar Evrópusambandsins, vandamál Kaliningrad í tengslum við inngöngu Litháen og Póllands í Evrópusambandið og samvinnu og samráð Norðurlanda varðandi friðargæslu.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 31. október 2002


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics