Hoppa yfir valmynd

Frammistöðumat Evrópusambandsins

Nr. 123

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Í dag var kynnt frammistöðumat (Internal Market Scoreboard) ESB, sem sýnir árangur ESB ríkjanna við innleiðingu tilskipana í landsrétt sinn. Samhliða er gerð úttekt af Eftirlitsstofnun EFTA á innleiðingu Íslands, Noregs og Liechtenstein, sem birt er til samanburðar í frammistöðumatinu.

Samkvæmt úttektinni er Ísland með 1,4% gerða útistandandi og er því í 6.-7. sæti af 18 ríkjum EES svæðisins, ásamt Bretum. Á undan Íslandi eru Svíþjóð, Finnland, Danmörk, Noregur og Holland. Norðurlandaþjóðirnar hafa verið með áberandi bestan árangur við innleiðingu EES gerða undanfarin ár og hefur Íslandi tekist að bæta árangur sinn við innleiðingu þannig að það heldur góðri stöðu í þessum samanburði. Liechtenstein hafnar í 10. sæti.

Meira en helmingur þeirra gerða sem ekki tókst að innleiða af hálfu Íslands, kallar á lagabreytingar hér á landi og þar sem þing kom saman um það bil er kom að lokafresti til að tilkynna innleiðingu, var ómögulegt að ljúka því ferli.

Ísland var í í 6. sæti í nóvember fyrir ári síðan, en var í 17. sæti í nóvember 2000. Þessi árangur verður að teljast mjög góður og er hann innan þess markmiðs sem aðildarríki ESB hafa sett sér, þ.e. að óinnleiddar gerðir séu ekki meira en 1,5% af heildarfjölda gerða sem tekið hafa gildi.

Í frammistöðumatinu er að þessu sinni einnig birt staða gerða sem verða orðnar tveggja ára eða eldri og óinnleiddar á næsta leiðtogafundi ESB vorið 2003, skv. ákvörðun leiðtogafundarins í Barcelóna. Ísland og Noregur eru ekki með neinar slíkar gerðir útistandandi. Af ESB-ríkjunum er það aðeins Finnland sem nær þessu takmarki, en til þess ber að líta að gerðir taka oft gildi nokkuð seinna innan EES samningsins en í ESB.

Ísland hefur einnig sýnt bestan árangur EES/EFTA ríkjanna, undanfarin ár við að leysa kvörtunar- og kærumál vegna meintra brota á skuldbindingum sínum skv. EES samningnum, strax á frumstigi.

Frammistöðumatið má finna á heimasíðu Eftirlitsstofnunar EFTA www.eftasurv.int og á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB http://europa.eu.int/comm/internal_market/en/update/score/index.htm



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 13. nóvember 2002


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics