Hoppa yfir valmynd

Ferðakostnaður ríkisins lækkaði um 1,1 milljarð króna milli ára

* Fréttatilkynningin hefur verið uppfærð vegna mistaka sem urðu við vinnslu gagna í fyrri útgáfu.

Ferðakostnaður ríkisins lækkaði á fyrstu sex mánuðum ársins um 1,1 milljarð króna og fór úr 2 ma.kr. árið 2019 í tæpa 0,9 ma.kr.árið 2020. Lækkunin nemur 55% en hana má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru.

Með ferðakostnaði er átt við ferðalög og uppihald á ferðalögum á Íslandi og erlendis. Tölurnar ná til A-hluta stofnana ríkisins sem eru um 160 talsins. Þar undir eru ráðuneytin og undirstofnanir þeirra, svo sem framhaldsskólar, háskólar, sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir, sýslumanns- og lögreglustjóraembætti.

Í Stjórnarráðinu lækkaði ferðakostnaður um 64% á tímabilinu. Ferðakostnaður ráðuneyta nam á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 160 m.kr. en 60 m.kr. á sama tímabili ársins 2020. Mesta hlutfallslækkun ferðakostnaðar er í samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem hann lækkaði um 81% en minnsta lækkun kostnaðarins var í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem ferðakostnaður lækkaði um 54% á milli ára.

Þegar skoðaður er ferðakostnaður einstakra stofnana sést að mest lækkun milli áranna 2019 og 2020 er hjá Háskóla Íslands, Landspítala og Landhelgisgæslu Íslands.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics