Hoppa yfir valmynd

Ávarpaði fund um norræna byggðaþróun á degi Norðurlandanna

Í dag, 23. mars, er dagur Norðurlandanna og stóð Norræna húsið fyrir fundi um efni skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu Norðurlandanna. Sigurður Ingi Jóhannsson, sem er samstarfsráðherra Norðurlanda, setti fundinn með ávarpi og síðan voru flutt erindi og efnið að lokum rætt í pallborði.

Skýrslan hefur að geyma lykiltölur um byggðaþróun, atvinnuþátttöku og skipulag og fleira og eru þær tölur greindar og bornar saman þvert á landamæri. Ágúst Bogason, frá Nordregio, sagði frá helstu atriðum skýrslunnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í upphafi ávarps síns að norræn samvinna hefði ávallt komið Íslendingum að góðu gagni og væri mikilvæg á hinu pólitíska sviði, einnig efnahagslega og ekki síst út frá menningu og menntun. Varpaði hann því fram hvort svo gæti ekki verið að norræna samvinnan nýttist Íslendingum hlutfallslega best, sem fámenn þjóð og sú yngsta í norrænu samstarfi, en engu síður fullgildur meðlimur. Sagði hann það veita Íslandi trausta fótfestu á alþjóðavettvangi að tilheyra Norðurlöndunum. Þá ræddi ráðherra um norræna samvinnu á sviði viðskipta, umhverfis- og auðlindamála og mennta- og menningarmála.

Ráðherra sagði Ísland taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um næstu áramót og yrði formennskuáætlun lögð fyrir þing Norðurlandaráðs í október. Hann sagðist þó geta upplýst nú að Ísland muni venju samkvæmt leggja áherslu á málefni sem standi landinu nærri og að færa þannig þyngdarpunktinn til vesturs í átt til Færeyja og Grænlands.

Í lok ávarps síns minntist ráðherra á skýrslu Nordregio, norrænu byggðarannsóknastofnunarinnar, sem kynnt var á fundinum. Hann sagði skýrsluna gott dæmi um kosti norræns samstarfs, þar hefði fjöldi sérfræðinga lagt fram sinn skerf og ítarleg tölfræði og greining myndi nýtast við stefnumótun og ákvarðanatöku. Sagði hann það ekki síst áhugavert að fjallað væri um Norðurlöndin sem eina heild og þeim skipt upp í 74 svæði en ekki í 8 ríki og sagði hann það breyta stöðunni á einstökum svæðum og landshlutum. Þannig gætu landshlutar á Íslandi borið sig saman við svæði í hinum löndunum og sagði hann það ánægjuefni hversu íslenskir landshlutar hefðu hækkað í þessum samanburði miðað við fyrri ár.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics