Hoppa yfir valmynd

Mikill kippur í kortanotkun og vegaumferð eykst eftir rýmkun samkomubanns

Umsvif í hagkerfinu hafa tekið vel við sér á ný samhliða því sem faraldur COVID-19 hér á landi hefur rénað og samkomubann var rýmkað. Vegaumferð og kortavelta drógust mikið saman í upphafi faraldursins en greinileg vatnaskil urðu í seinni hluta apríl þegar umsvif byrjuðu að aukast á ný. Vegaumferð á höfuðborgarsvæðinu er nú orðin svipuð og hún var áður en faraldurinn kom upp. Velta greiðslukorta sem útgefin eru á Íslandi tók mikinn kipp um það leyti sem samkomubann var rýmkað þann 4. maí.

 

Kortavelta veitir góða vísbendingu um umsvif í verslun og þjónustu. Kortavelta erlendra ferðamanna er nú lítil sem engin en á móti vegur að velta Íslendinga hefur tekið vel við sér að undanförnu, sérstaklega í upphafi maí eða um það leyti sem samkomubann var rýmkað. Samkvæmt nýjustu tölum er kortavelta Íslendinga svipuð og hún var í upphafi mars, áður en áhrifa faraldursins á umsvif í hagkerfinu tók að gæta að ráði. Leiða má að því líkur að margir hafi frestað kaupum á vöru og þjónustu þangað til eftir að samkomubannið var rýmkað.

Tölur um umferð segja svipaða sögu. Umferð dróst mikið saman í mars, sérstaklega eftir að samkomubann var sett á. Þegar umferð var sem minnst var hún yfir 40% minni en á sama tíma í fyrra. Í kringum páska hóf umferð á höfuðborgarsvæðinu að taka við sér á ný og er hún nú orðin svipuð og hún var í upphafi þessa árs en þó um 9% minni en á sama tíma í fyrra. Það virðist að miklu leyti skýrast af minni fjölda erlendra ferðamanna þar sem umferð hefur dregist meira saman á leiðinni milli Keflavíkurflugvallar og miðborgarinnar en öðrum vegum á svæðinu. Umferð á Reykjanesbraut nálægt Vogum er enn um þriðjungi minni en á sama tíma í fyrra.

 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics