Hoppa yfir valmynd

Fyrirlestur Alyson Bailes, framkvæmdastjóra sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar (SIPRI), 21. júní n.k.

Í erindinu, sem ber yfirskriftina “Euro-Atlantic Relations in Flux” mun Bailes ræða um þá óvissu sem er ríkjandi í samskiptum Evrópuríkja og Bandaríkjanna; hvernig túlka megi það ójafnvægi sem einkennt hefur þau samskipti síðastliðin tvö ár og hver áhrif þess kunni að verða til lengri tíma litið.

Bailes útskrifaðist með MA gráðu frá Oxford árið 1969 og hefur mestan sinn starfsferil starfað innan bresku utanríkisþjónustunnar. Hefur hún starfs síns vegna dvalið m.a. í Búdapest, Bonn og Peking. Í hléum frá utanríkisþjónustunni tók hún m.a. að sér embætti varaforseta fyrir evrópska öryggismálaverkefnið á vegum EastWest Studies (nú EastWest Institute) í New York og síðar var hún valin til að gegna starfi framkvæmdastjóra Vestur-evrópska ráðsins í Brussel. Bailes er heimsþekkt á sviði öryggismála og hafa fjölda greina verið birtar eftir hana í alþjóðlegum tímaritum um málefni sem snerta varnir Evrópu, öryggissamvinnu og takmörkun vopna.

Á vel sóttum fundi á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ fyrir ári síðan ræddi Bailes um ástæður þeirrar mótsagnar, sem upp væri komin í vestrænum öryggismálum frá sjónarhóli Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, Rússlands og NATO. Segir Bailes að andstætt því sem hún þóttist sjá þá, álítur hún að hvorki Evrópusambandið né NATO leiki aðalhlutverkin í þeirri þróun sem greina má nú í samskiptum Evrópuríkja og Bandaríkjanna. Leita verði að enn djúpstæðari skýringum en þeim sem liggja í áhrifum þessarra alþjóðastofnana- en þær skýringar mun Bailes m.a. draga fram í erindi sínu.

Fundarstjóri er Sturla Sigurjónsson, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins,

Fundurinn er öllum opinn og hefst kl. 12:05 í stofu 101, Lögbergi.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics