Hoppa yfir valmynd

Skýrsla starfshóps um EES-samstarfið komin út

Starfshópurinn sem samdi EES-skýrsluna. Frá vinstri: Bergþóra Halldórsdóttir, Kristrún Heimisdóttir og Björn Bjarnason. - myndUtanríkisráðuneytið

Starfshópur skipaður af utanríkisráðherra hefur skilað skýrslu sinni um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í dag. 

Í ágúst í fyrra skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra starfshóp til að vinna skýrslu um aðild Íslands að EES-samningnum. Með útgáfu skýrslunnar er komið til móts við beiðni frá hópi þingmanna um skýrslu utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að EES-samningnum sem samþykkt var á Alþingi í fyrra en tilefnið er jafnframt að í ár eru 25 liðin frá gildistöku EES-samningsins.

Afrakstur vinnu starfshópsins, sem ber yfirskriftina Skýrsla starfshóps um EES-samstarfið, er nú kominn út og voru helstu niðurstöðurnar kynntar á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í dag. Skýrslan er yfirgripsmikil, rúmar þrjú hundruð blaðsíður, en hópurinn leitaði til helstu sérfræðinga á þeim sviðum sem skýrslugerðin tekur til, bæði heima og erlendis. 

„Útkoma þessarar viðamiklu skýrslu er mikið fagnaðarefni og ég er sannfærður um að hún eigi eftir að verða þýðingarmikið innlegg í þær frjóu umræður sem nú standa yfir í þjóðfélaginu um kosti og galla EES-samstarfsins. Nú tekur við nákvæm rýni á efni skýrslunnar en mér sýnist ljóst af fyrstu yfirferð að um að starfshópurinn hafi vandað til verka í hvívetna og skoðað þessi flóknu mál út frá öllum hliðum. Um leið og ég óska starfshópnum til hamingju með afraksturinn færi ég honum mínar bestu þakkir fyrir vel unnin störf,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Starfshópinn skipuðu þrír einstaklingar með víðtæka reynslu og fjölþætta þekkingu á sviði Evrópumála og alþjóðaviðskipta. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, var formaður hópsins en auk hans sátu í hópnum þær Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi frkvstj. Samtaka iðnaðarins, og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur og forstöðumaður viðskiptaþróunar Íslandsstofu. Hópnum til halds og trausts var Pétur Gunnarsson, sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu. 

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni á Stjórnarráðsvefnum. 

 
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 3

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics