Hoppa yfir valmynd

Mögulegum refsiaðgerðum vegna makríls mótmælt

Norrænu utanríkisráðherrarnir fimm.
Norrænu utanríkisráðherrarnir fimm

Á fundi með 12 utanríkisráðherrum Norður- og Mið-Evrópu í Gdansk, Póllandi, í morgun mótmælti Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, harðlega hugmyndum Noregs og ríkja innan Evrópusambandsins um viðskiptalegar refsiaðgerðir vegna makríldeilunnar.

Utanríkisráðherra sagði það óhugsandi frá sínum sjónarhóli að Evrópusambandið tæki þátt í slíkum aðgerðum gagnvart umsóknarríki, og kvað það myndu hafa afleiðingar fyrir tengsl Íslands og sambandsins.

Í umræðum um endurnýjanlegar orkulausnir benti utanríkisráðherra á að Ísland hefði nú þegar sem eitt fremsta jarðhitaland heimsins rutt brautina fyrir nýtingu jarðhita í Mið-Evrópu, og náð með fjögurra ára baráttu að fá Evrópusambandið til að beina athygli sinni að jarðhita sem valkosti á völdum svæðum.

„Mörg svæði í Mið-Evrópu hafa töluverða möguleika á að nýta jarðhita, einkum lághita, og mörg íslensk fyrirtæki hafa notið atbeina utanríkisráðuneytisins til að byrja á verkefnum í jarðhita í þessum löndum, stundum með liðsinni sjóða sem Íslendingar eiga aðild að í gegnum EES.”

Á fundinum óskaði Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, sérstaklega eftir liðsinni Íslands við að meta möguleika Pólverja á því að nýta jarðhita til orkuvinnslu.

Fundurinn var hinn fyrsti sem haldinn er sameiginlega af Norðurlöndunum fimm, Eystrasaltsríkjunum þremur og hinum svokölluðu Visegrad-ríkjum, en þau eru Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland. Utanríkisráðherra hefur hvatt til þess að ríkin búi til formlegan vettvang til að starfa saman með þessum hætti.

„Í þessum hópi eru margar af helstu stuðningsþjóðum Íslands, og reynsla okkar sýnir að lítil og millistór ríki eru jafnan boðin og búin til að verja hagsmuni hvers annars, hvort sem þeir liggja innan eða utan Evrópusambandsins. Þessvegna hef ég stutt þessa hugmynd frá upphafi, og tel að þessi ríki eigi að hafa með sér formlegt samstarf til að verja og sækja fyrir hagsmuni hvers annars. Þetta er sá hópur sem ég hef mest ræktað, og þar er að finna mestan stuðning, bæði við aðildarumsóknina og einnig í makríldeilunni,” sagði utanríkisráðherra.

Loftrýmiseftirlit á Íslandi var sérstaklega rætt sem dæmi um snjallvarnir, og reifaði Össur fyrirkomulag á þátttöku Svía og Finna í því.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics