Hoppa yfir valmynd

Óskað eftir umsögnum um drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið óskar eftir umsögnum á samráðsgátt stjórnvalda um drög að lagafrumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð.

Ríkisstjórnin ákvað í janúar sl., að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, að skipa starfshóp um kjararáð. Forsætisráðherra skipaði starfshópinn 23. janúar sl. og átti hann að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs. Þá átti starfshópurinn að taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og þeirri launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur. Starfshópurinn skilaði skýrslu til forsætisráðherra þann 15. febrúar sl. og sama dag var hún birt á vef Stjórnarráðsins. 

Með frumvarpinu er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem heyrðu undir kjararáð sem felst í því að ákvörðun launa þeirra sem féllu undir ráðið er skipað með hliðsjón af þeim tillögum sem starfshópur um kjararáð lagði til í skýrslu sinni.

Í frumvarpinu er lagt til:

  • Að laun þjóðkjörinna manna verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð hinn 1. maí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna.
  • Að laun dómara, saksóknara, ráðherra, ríkissáttasemjara og seðlabankastjóra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð fyrir dagvinnu og álagi fyrir yfirvinnu miðað við tiltekið tímamark og þau síðan endurákvörðuð hinn 1. maí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna.
  • Að laun og starfskjör ráðuneytisstjóra, forsetaritara, nefndamanna í fullu starfi hjá nokkrum úrskurðarnefndum verði ákvörðuð með hliðsjón af því fyrirkomulagi sem ákveðið er í 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
  • Að laun og starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga verði ákvörðuð af ráðherra með hliðsjón af kjarasamningi þeim sem aðrir skrifstofustjórar falla undir.
  • Að laun og starfskjör aðstoðarseðlabankastjóra og sendiherra falli undir kjarasamninga og að viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd.
  • Að ákvörðun um laun og starfskjör Biskups Íslands og starfsmanna þjóðkirkjunnar, sbr. 60. gr. laga um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, verði fastsett miðað við krónutölufjárhæðir í ákvörðun kjararáðs þann 17. desember 2017 og taki síðan breytingum 1. maí ár hvert í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og þær birtast í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár þar til nýtt samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna um launafyrirkomulag.

Drögin hafa verið birt á samráðsgátt stjórnvalda við almenning og er unnt að senda umsagnir um drögin til 19. júlí nk.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics