Hoppa yfir valmynd

Ungt fólk á Norðurlöndum í lykilhlutverki

Norðurlandaráðsþingi er nýlokið í Osló og kynnti Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra áherslur formennskuárs Íslendinga á sviði menningarmála á samráðsfundi norrænu menningarmálaráðherranna og á fundi mennta- og menningarmálanefndar Norðurlandaráðs. Ísland tekur við formennsku í Norðurlandaráði í ársbyrjun 2019. Formennskuáætlun Íslands í heild sinni var kynnt á þinginu en hún byggir á þremur áherslum: Ungt fólk á Norðurlöndum, Sjálfbær ferðamennska í norðri og Hafið – blár vöxtur í norðri.

„Viðfangsefni okkar á menningarsviðinu tengjast áherslunni á ungt fólk á Norðurlöndunum, þannig eru verkefni okkar Menntun fyrir alla og Platform-Gátt umfangsmikil verkefni á sviðum menntunar og lista fyrir ungt fólk. Á þessu ári förum við einnig með formennsku í norrænu barna- og ungmennanefndinni NORDBUK en eitt af markmiðum hennar er að efla samtakamátt og þátttöku ungs fólks á Norðurlöndunum í samfélagslegum verkefnum og lýðræðisferlum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Þá munum við skipuleggja tvær ráðstefnur þar sem málefni UNESCO verða í brennidepli. Á vettvangi fjölmiðlunar munum við gera átak í að efla fjölmiðlun sem tæki gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu en það verkefni á sér rót í formennsku Svía á þessu ári. Á íþróttasviðinu er ráðgert að skipuleggja hliðarviðburði á stórri ráðstefnu íslensku formennskunnar næsta haust um #églíka-byltinguna.“

Ísland leggur áherslu á tungumálasamstarf í formennsku sinni og hyggst mennta- og menningarmálaráðherra meðal annars kanna hvort tímabært sé að endurskoða málstefnu Norðurlanda: „Mikilvægt er einnig að sjónarhorn ungs fólks komi af fullum þunga inn í umræður um áherslur í norrænu tungumálasamstarfi. Í formennskuáætlun Íslands í norrænu samstarfi fyrir árin 2019-2021 er sérstök áhersla lögð á þátttöku og samræðu ungs fólks um mennta- og menningarmál og heimsmarkmiðin Sameinuðu þjóðanna.“

Á fundinum var einnig tekin ákvörðun um sameiginlega menningarkynningu Norðurlandanna, hliðstæða Nordic Cool sem fram fór í Washington 2013 og Nordic Matters í Lundúnum 2017. Menningarsamstarf af því tagi hefur verið kveikja að fjölmörgum hátíðum og listverkefnum á Norðurlöndunum. Norræn sendinefnd mun kynna tillögur sínar að staðsetningu þriðju menningarkynningarinnar um miðjan nóvember.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics