Hoppa yfir valmynd

Áherslur Íslands undanfarið á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Nr. 126

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Áherslur Íslands undanfarið á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Lausn handritamálsins: Fordæmi fyrir aðra

Þann 31. október flutti Hjálmar W. Hannesson, sendiherra, ræðu í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna við umræðu um ályktunartillögu um skil menningarverðmæta. Ísland er meðflytjandi tillögunnar. Þar gerði hann grein fyrir farsælli lausn handritamálsins og skýrði frá hversu góð áhrif hún hafði á samskipti Íslendinga og Dana. Lönd, sem nú deila um forræði menningarminja geti dregið lærdóm af því.

Afnám allrar mismununar gegn konum

Fimmtudaginn 30. október var samþykkt ályktun um alþjóðasamninginn um afnám allrar mismununar gegn konum sem Ísland lagði fram fyrir hönd Norðurlandanna. Ályktuninni er fyrst og fremst ætlað að minna á mikilvægi samningsins og framkvæmdar hans af hálfu aðildarríkjanna. Einnig er skorað á ríki sem enn hafa ekki gerst aðilar að samningnum að samþykkja hann, en yfirlýst markmið er að fá öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að undirgangast skuldbindingar samningsins. Gréta Gunnarsdóttir, varafastafulltrúi, sem stýrði vinnu um gerð ályktunarinnar, mælti fyrir tillögunni og alls gerðust 126 önnur ríki meðflytjendur hennar.
Alls hafa 174 ríki gerst aðilar að samningnum sem þýðir að hann er sá mannréttindasamningur sem hefur hlotið næst mestan fjölda aðildarríkja. Eingöngu alþjóðasamningurinn um réttindi barnsins hefur fleiri aðildarríki, 192 talsins.

Vernd kvenna í vopnuðum átökum

Miðvikudaginn 29. október flutti Hjálmar W. Hannesson, fastafulltrúi, ræðu í opinni umræðu í öryggisráðinu um ályktun ráðsins nr. 1325 um konur, stríð og öryggi. Ályktun þessi var aðalumræðuefnið á ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík 11. október sl. með þátttöku Elisabeth Rehn, fyrrverandi varnarmálaráðherra Finnlands.
Fastafulltrúinn lagði fyrst og fremst áherslu á framkvæmd ályktunarinnar sem kveður annars vegar á um vernd kvenna í vopnuðum átökum og hins vegar um þátttöku þeirra á öllum stigum ákvarðanatöku, hvort sem um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir, friðarsamningaviðræður, friðargæslu eða enduruppbyggingu.
Skorað var á aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að gera það að forgangsmáli að skipa fleiri konur í stöður sérstakra fulltrúa í samræmi við ákvæði ályktunarinnar. Loks var minnst á hversu mikilvægu hlutverki alþjóðasakamáladómstóllin gegnir á þeim sviðum sem ályktun 1325 tekur til.

Bágborin staða barna, sem búa á stofnunum

Gréta Gunnarsdóttir, varafastafulltrúi flutti ræðu um réttindi barna í þriðju nefnd hinn 21. október. Í ræðunni var lögð áhersla á mikilvægi alþjóðasamningsins um réttindi barnsins og framkvæmd hans.
Bágborin staða barna sem búa á stofnunum víða um heim var gerð að sérstöku umtalsefni og möguleg aðkoma Sameinuðu þjóðanna að því að tryggja réttindi þeirra. Einnig var fjallað um réttindi barna sem koma án fylgdar fullorðinna til annarra ríkja en þeim hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum.
Skýrt var frá þátttöku Íslands í samstarfi 14 ríkja til að auka vernd slíkra barna. Loks var skýrt frá fyrirhugaðri stofnun UNICEF skrifstofu á Íslandi.

Fjárlagagerð: Krafa um skilvirkni og gagnsæi

Þá ávarpaði Hjálmar W. Hannesson fjárlaganefnd Sameinuðu þjóðanna er Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóri lagði fram fjárlagafrumvarp næstu tveggja ára. Fastafulltrúinn vakti athygli á því að upphæð þeirra færi nú í fyrsta sinn yfir þrjá milljarða dollara. Þótt það endurspegli aukin viðfangsefni, þá væri tímabært að endurskoða markmið hinna ýmsu verkefna jafnhliða allsherjarenduskoðun á vinnulagi samtakanna.
Hann nefndi að með upptöku árangurstengdrar fjárlagagerðar og stjórnsýslu yrði fé betur varið til þeirra verkefna sem skila árangri en óskhyggja síður látin ráða ferð. Með framlagningu markvissari og skýrari fjárlaga og efldu innra eftirliti yrðu aðildarríkjunum gerð betri grein fyrir því hvert fé þeirra rennur og hverju framlögin fá áorkað.
Þá vék hann að þörfinni á að Sameinuðu þjóðirnar færu í farabroddi um hagnýtingu upplýsinga- og tölvutækni og legðu sitt af mörkum til þess að færa þá tækni til þróunarríkjanna.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 4. nóvember 2003


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics