Hoppa yfir valmynd

Nr. 044, 21. maí 2001. UNCTAD-LDC3, fundur í Brussel 14. - 20. maí

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 044


Þriðja ráðstefna Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um málefni þeirra þróunarríkja sem búa við verstan efnahag var haldin í Brussel dagana 14. - 20. maí í samvinnu við Evrópusambandið. Ráðstefnan var sótt af fulltrúum 193 ríkja, fjölda alþjóðlegra og svæðisbundinna stofnana, óháðra félagasamtaka og fyrirtækja.
Á ráðstefnunni kom skýrlega fram viðleitni UNCTAD til að tryggja áframhaldandi milliríkjasamstarf á þessu sviði. Jafnframt skiptust þátttakendur á ráðstefnunni á skoðunum um hagnýtar leiðir til að draga úr eða leysa vanda þeirra þróunarríkja sem búa við verstan efnahag.
Við ráðstefnulok var samþykkt svonefnd Brussel-yfirlýsing, þar sem lögð er áhersla á að alþjóðlegt viðskiptaumhverfi verði skipulagt með þeim hætti að umrædd ríki geti notið góðs af hnattvæðingunni, til dæmis með því að auðvelda þeim inngöngu í Alþjóða viðskiptastofnunina (WTO).
Samþykkt var starfsáætlun þátttökuríkja fyrir tímabilið 2001-2010. Áætlunin lýsir ákveðnum markmiðum ríkra og fátækra þjóða sem eiga að efla samstarf þeirra, meðal annars hvað varðar umbætur í stjórnsýslu þróunarríkja.
Loks var ákveðið að nota tækifærið sem gæfist með Alþjóðaráðstefnu um fjármögnun þróunar, sem haldin verður í Mexíkó á næsta ári, til að hvetja iðnríki til dáða varðandi framlög til þróunarmála, en úr slíkum framlögum hefur dregið undanfarin ár. Einnig eru iðnríkin hvött til að láta fé af hendi rakna efla starfsemi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Sendinefnd Íslands á fundinum var skipuð starfsfólki sendiráðs Íslands í Brussel. Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Brussel, ávarpaði ráðstefnuna fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Ávarp sendiherrans, þar sem helstu stefnumál Íslands koma fram, fylgir hjálagt.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu ráðstefnunnar: http://www.un.org/events/ldc3/conference/






Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 21. mai 2001.





Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics