Hoppa yfir valmynd

Ræða utanríkisráðherra í Portó

Nr. 133

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Utanríkisráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, var haldinn í Portó 6.-7. desember 2002 og var meginefni fundarins barátta stofnunarinnar gegn hryðjuverkastarfsemi. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundinum samþykktu utanríkisráðherrar aðildarríkjanna 55 sérstaka samþykkt ÖSE til að stemma stigu við hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Samþykktin byggir á grunni Búkarest yfirlýsingar ÖSE frá síðasta ári þar sem baráttan gegn hryðjuverkum var skilgreind sem forgangsverkefni stofnunarinnar.

Utanríkisráðherra lýsti á fundinum yfir ánægju með samþykkt ÖSE gegn hryðjuverkastarfsemi, en með henni væri lagður grunnur að eflingu starfs ÖSE gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi, ekki síst fíkniefnasmygli og mansali.

Utanríkisráðherra áréttaði í ávarpi sínu mikilvægi starfa ÖSE vegna baráttunnar gegn mansali og kynlífsþrælkun kvenna, en á fundinum samþykktu ráðherrarnir sérstaka yfirlýsingu um eflingu starfsemi stofnunarinnar gegn mansali, ekki síst á Balkanskaga. Hann lagði einnig áherslu á mikilvægi margþættrar starfsemi ÖSE á sviði mannréttinda, átakavarna og eflingar lýðræðis í aðildarríkjunum. Með framlagi á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi sendinefnda stofnunarinnar á vettvangi, gegndi ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi í aðildarríkjunum.

Einnig kom fram í máli ráðherra að ÖSE þyrfti að gæta í ríkara mæli mannréttinda barna, ekki síst á átakasvæðum í aðildarríkjunum.

Meðfylgjandi er ávarp utanríkisráðherra á fundinum. Jafnframt er hægt að nálgast allar aðrar upplýsingar og yfirlýsingar ráðherrafundarins á vefsíðu ÖSE: www.osce.org.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 6. desember 2002



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics