Hoppa yfir valmynd

Norrænt net kvenna í friðarumleitunum stofnað

norraent-net

Norrænt net kvenna í friðarumleitunum var stofnað í Ósló í gær. Hugmyndin að netinu, sem tengir konur með reynslu af samningaumleitunum og störfum á átakasvæðum, er að hvetja til þess að konur komi í auknum mæli að friðarumleitunum á alþjóðavettvangi. Reynslan sýnir að friðarsamningar sem konur koma að, leiða oftar til niðurstöðu en þar sem þær taka ekki þátt, ekki síst vegna hlutverks þeirra þegar kemur að því að innleiða friðarsamningana.

"Við eigum ekki að þurfa að útskýra hvers vegna konur eiga erindi að samningaborðinu, ekki frekar en hvers vegna karlar sitja þar," segir Gréta Gunnarsdóttir, sem situr fyrir Íslands hönd í ráðgjafahópi netsins.

Undir þetta tekur Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri, sem ávarpaði stofnfundinn. "Við erum öll sammála um a konur og karlar eigi að vera jafnsett og jafn sýnileg við samningaborðið. Með þessu framtaki viljum við sýna fram á það, svart á hvítu, að Norðurlöndin búi yfir hópi kvenna með mikla getu og reynslu við samningaborðið. Það eru engar gildar afsakanir fyrir því hversu fáar konur sjást þar alla jafna," sagði Stefán Haukur í erindi sínu.

Ætlunin er að netið, sem í eiga sæti konur frá Norðurlöndunum, tengist öðrum alþjóðlegum hópum kvenna í samningaumleitunum, í aðdraganda friðarsamninga, samningunum sjálfum og við að framfylgja þeim.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics