Hoppa yfir valmynd

Áframhald samstarfs við UN Women

Guðlaugur Þór og Phumzile Mlambo-Ngcuka. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) undirrituðu í morgun rammasamning um áframhaldandi samstarf íslenskra stjórnvalda og UN Women. Guðlaugur Þór er staddur í New York þar sem hann mun funda með Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og forsvarsmönnum helstu samvinnustofnana Íslands á vettvangi SÞ.

Í þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á samstarf við UN Women og þrjár aðrar fjölþjóðlegar stofnanir. UN Women vinnur ötullega að því að auka virðingu fyrir mannréttindum kvenna um allan heim og vægi jafnréttismála hvort sem er í einstökum ríkjum eða í störfum Sameinuðu þjóðanna enda lýtur fimmta Heimsmarkmiðið sérstaklega að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna.

Árangurinn af störfum UN Women felst m.a. í lagabreytingum í einstaka ríkjum sem fela í sér aukið jafnrétti og taka á kynbundnu ofbeldi, aukinni stjórnmálaþátttöku kvenna og efnahagslega valdefingu kvenna – allt aðgerðir sem geta haft djúpstæð áhrif á réttarstöðu milljóna kvenna um allan heim.

„Framlög Íslands til UN Women skipta verulegu máli og eru í takt við forystu Íslands í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi,“ sagði Guðlaugur Þór. „Bætt staða kvenna er ekki eingöngu mannréttindamál, heldur grundvöllurinn fyrir sjálfbærri þróun og árangri á öðrum sviðum. Við getum ekki tekist á við áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir með hálft lið á vellinum,“ sagði hann.

Íslensk stjórnvöld hafa stutt starfsemi UN Women, þar með talið landsnefnd UN Women á Íslandi, með fjárframlögum um árabil, að mestu leyti í formi kjarnaframlaga en einnig framlaga sem renna m.a. til verkefna í Mósambík, Afganistan, Palestínu og flóttamannabúðum í Jórdaníu. Ennfremur hafa allmargir íslenskir starfsmenn verið sendir utan til starfa á vegum UN Women. Samkvæmt samningnum munu íslensk stjórnvöld verja að minnsta kosti 170 milljónum króna árlega í framlög til stofnunarinnar til viðbótar við sérstakan stuðning við verkefni UN Women í Mósambík um konur, frið og öryggi, sem hófst á síðasta ári.

Tags

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Heimsmarkmiðin

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics