Hoppa yfir valmynd

Nr. 014, 6. mars 1998: Kynning á matvælum og matargerðarlist í Bandaríkjunum .

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

Nr. 14



THE GOURMET ICELAND
Kynning á matvælum og matargerðarlist frá Íslandi í Bandaríkjunum 9.-27. mars 1997




Íslensk hráefni og matargerðarlist verða í fyrsta sinn kynnt sem sælkeramatur erlendis á veitingastaðnum Delegates Dining Room sem staðsettur er í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Að kynningunni standa viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins og Ferðamálaráð Íslands í samvinnu við fyrirtækið Restaurant Associates, sem rekur 80 veitingastaði í Norður Ameríku.

"The Gourmet Iceland" hefst mánudaginn 9. mars með því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri Reykjavíkur og Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra Íslands í Bandaríkjunum bjóða blaðamönnum frá bandarískum fjölmiðlum í íslenskan hádegisverð þar sem á boðstólum verða m.a. sjávarréttir, lambakjöt og skyr. Alicia Di Folco, blaðafulltrúi Restaurant Associates, telur að fulltrúar frá 20-30 fjölmiðlum mæti á "Chefs table" mánudaginn 9. mars þar sem blaðamenn frá t.d. stórblaðinu New York Times, Time Out New York, Food and Wine, Details, Family Circle o.fl. verða viðstaddir í eldhúsinu þar sem matreiðslumenn breyta íslensku hráefni í spennandi rétti. Þannig fá fjölmiðlamenn tækifæri til að fylgjast með hverju handtaki og ræða við íslenska matreiðslumenn að störfum.

Mest allt hráefni veitingastaðarins kemur beint frá Íslandi, þ.e. Coldwater Seafood Corporation (dótturfyrirtæki SH í Bandaríkjunum), Sans Souci Seafood Limited (dótturfyrirtæki SÍF hf. í Bandaríkjunum), ORA, Thorspring, Osta- og smjörsölunni, Mjólkursamsölunni, Kjötumboðinu Goða, Íslenskt franskt eldhús, Víking bjór og Catco. Flugleiðir og Reykjavíkurborg eru einnig stuðningsaðilar þessarar matvælakynningar.

Þessa daga í mars munu íslenskir matreiðslumenn útbúa matseðla og starfa við hlið starfsfólks Delegates Dining Room við matreiðslu á réttum frá Íslandi: Sex íslenskir matreiðslumenn taka þátt í þessu verkefni og verður Sigmar B. Hauksson liðstjóri en aðrir verða Örn Garðarsson (Hótel Borg), Jón Þór Gunnarsson (Argentínu), Stefán Viðarsson (Glóðinni Keflavík), Rögnvaldur Guðbrandsson (Þremur Frökkum), Sæþór Heiðar Þorbergsson (Hótel Stykkishólmi) og Ásbjörn Pálsson (Lækjarbrekku).


Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins og Ferðamálaráð Íslands telja þessa kynningu á íslenskri matargerðarlist og hráefni mikilvæga, en veitingastaðir eru stærsti hópur kaupenda íslenskra afurða í Bandaríkjunum. Samkvæmt markaðskönnunum Ferðamálaráðs koma flestir bandarískir ferðamenn til Íslands frá austurströnd Bandaríkjanna. Þeir hafa mikinn áhuga á íslenskri matargerð, útiveru og menningarlífi. Allt kynningarefni veitingastaðarins og matseðlar eru prentaðir af prentsmiðjunni Odda hf. sem rekur skrifstofu á New York svæðinu.
                                      Utanríkisráðuneytið
                                      6. mars 1998

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics