Hoppa yfir valmynd

Aðild Íslands að Norðurskautsráðinu gegnir lykilhlutverki

Katrín Jakobsdóttir alþingismaður, Valtteri Hirvonen, sendiherra Finnlands, Jill Esposito, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna og Lilja. - mynd

Málefni norðurslóða eru eitt af forgangsmálum í utanríkisstefnu Íslendinga og aðildin að Norðurskautsráðinu gegnir þar lykilhlutverki, sagði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra á málþingi í Norræna húsinu í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá stofnun Norðurskautsráðsins. Hún gerði grein fyrir stöðu Íslands á norðurslóðum og sýn stjórnvalda á mikilvægi ráðsins og minnti á nýtt hagsmunamat fyrir Ísland um norðurslóðir sem unnið er af ráðherranefnd um norðurslóðir og kynnt var í gær.

„Þegar kemur að norðurslóðum hefur Ísland í raun mikilvæga sérstöðu – nefnilega að allt landið og stór hluti okkar landhelgi eru innan marka norðurslóða. Þetta þýðir að allir íbúar landsins og langstærstur hluti okkar fiskimiða eru innan marka svæðisins. Þetta er einstakt meðal ríkjanna í Norðurskautsráðinu“ sagði utanríkisráðherra.

Hún undirstrikaði að annars vegar hafi loftslagsbreytingar og hlýnandi veðurfar valdið hröðum breytingum á umhverfi og viðkvæmu vistkerfi á norðurslóðum og, hins vegar, hafi aukin eftirspurn eftir hrávöru og auðlindum á svæðinu vakið spurningar um hvernig best sé að tryggja sjálfbæra þróun á norðurslóðum.

Lilja sagði samvinnu ríkjanna átta sem standa að Norðurskautsráðinu hafa verið með ágætum, þrátt fyrir umrót í alþjóðamálum og sagði það afar mikilvægt fyrir Ísland að eiga sæti við borðið á þessum vettvangi. Hún minnti á að Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu vorið 2019. „Það er mikilvægt fyrir Ísland að nýta það tækifæri eins vel og kostur er. Formennskuríki hverju sinni hefur tækifæri til að móta áherslur í starfi ráðsins yfir tveggja ára tímabil og koma góðum málum til leiðar“ sagði ráðherra.

Loks lagði utanríkisráðherra áherslu á að hagsmunir Íslands á norðurslóðum séu margþættir og margslungnir og að tækifærin og áskoranirnar sem við blasa verði ekki svo auðveldlega vegin á vogarskálum.

„Hagsmunir Íslands hljóta að felast í því að nýta tækifærin með ábyrgum og sjálfbærum hætti og geta brugðist hratt við ef hættu ber að höndum. Ábyrgð okkar er rík, hvort heldur sem er gagnvart umhverfi eða ólíkum samfélögum sem norðrið byggja, og viðkvæmt vistkerfið á norðurslóðum á ávallt að njóta vafans ef einhver er“ sagði ráðherra.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics