Hoppa yfir valmynd

Ökuferðir - Road Trips

Hálmar W. Hannesson
Hjálmar W. Hannesson

Það kemur stundum fyrir að hringt er frá Íslandi hingað til Winnipeg og spurt hvort ekki sé bara hægt að skreppa í ökuferð til Calgary eða Vancouver til að sinna erindum, svona rétt eins og um skreppitúr upp á Skaga sé að ræða. Það kom líka fyrir á Ottawaárunum mínum (2001-2003) að hringt var að heiman og ljóst að viðmælendur héldu að Winnipeg væri bara smáspotta frá kanadísku höfuðborginni, en ekki í þriggja klst. flugfjarlægð. Vegalengdir hér á sléttunum miklu eru gífurlegar og útsýnið ekki margbreytilegt, þúsund kílómetra í allar áttir. Engin fjallasýn þar, aðeins endalaust flatlendi, akrar eins langt og augað eygir og  vegir þráðbeint út í sjóndeildarhring. Þetta er "the bread basket of the world".

Í ágústbyrjun komu forsætisráðherrahjónin til að taka þátt í Íslendingadeginum í Gimli og Deuce of August hátíðinni  í Mountain í Norður Dakóta (Fjallabyggð). Við Anna ókum þá með þeim heimsóknardagana og loks að flugvellinum í Winnipeg til að kveðja. Sama dag ókum við af stað í meiriháttar ökuferð til Regina (höfuðborgar Saskatchewan), Calgary, Red Deer, Markerville, Edmonton (höfuðborgar Alberta) og til baka um Saskatoon, og loks Wynyard og Foam Lake (Vatnabyggð) og lokuðum hringnum hér. Þá höfðum við setið í bílnum samtals í meira en eina vinnuviku, eða 44 klst. á fjórtán dögum. Þegar litið er á landakort virðist þessi hringur sem þarna var farinn ekki ýkja stór, en hann leynir verulega á sér ! Að sumri til eru allar aðstæður hinar bestu á þessum þjóðvegum Kanada og gaman að njóta þess frelsis sem bílinn veitir milli funda og mannfagnaða. Helsta hættan er að sljógvast eða jafnvel sofna undir stýri. Þannig verða mörg slysin.

Hjálmar W. Hannesson á leið í bíltúrAð vetri til eru aðstæður á þjóðvegunum hér í kring allt aðrar, eins og gefur að skilja. Þá dugir ekki að hafa aðra hönd á stýri !

Desembermánuður hér í Winnipeg var einn hinn kaldasti í hundrað ár og meðalhiti mánaðarins var mínus 21° C sem ekki segir einu sinni alla söguna þegar vindkælingin bætist við. Með henni fór kuldinn oft niður fyrir - 40 °C. Allir bílar hér eru með litla rafmagnsmótora sem hita undir húddinu yfir nætur. Og á hverjum vetri verða nokkur dauðsföll er bílar fara út af, fólk ekki með neyðarútbúnað gegn kuldanum og aðstoð berst of seint. Yfir 20 þúsund árekstrar urðu í Winnipeg í desember, eða um 645 hvern dag mánaðarins, sem er met. Ökumenn freistast til að hafa bílana í gangi meðan þeir skreppa frá og 52 bílum í gangi var stolið í desember í Winnipeg. Sem betur fer er oftar sól og heiður himinn með frostunum og því fallegt gluggaveður. Árið 1879, fjórum árum eftir að landnám V. Íslendinga hófst í Gimli, var kaldasti desember í allri skráðri sögu Winnipeg. Þá var meðalhiti mánaðarins mínus 26 gráður á C ! Það er bara alls ekki hægt að setja sig í fótspor þess fólks sem þarna var nýkomið frá Íslandi í von um betra líf og hafði ekki nema að litlu leyti komið sér upp húsum í merkingunni mannabústaðir.

Milli Winnipeg og Gimli er nú beinn og breiður þjóðvegur og tekur ferðin á milli rúma klst. í bíl í góðu veðri. Til Gimli fer aðalræðismaðurinn í Winnipeg að sjálfsögðu mjög oft, árið um kring. Eina slíka ferð fórum við Anna með Björn Thoroddsen, gítarsnilling, vegna tónleika sem hann hélt í Gimli 5. desember sl. Tókust þeir alveg geysivel og ennfremur í Winnipeg næsta kvöld þar sem mikið fjölmenni var samankomið.

Björn Thoroddsen spilar bítlana-Laugardaginn 7. desember fórum við Björn snemma af stað og nú stefndum við á Brandon, 220 km. vestur af Winnipeg þar sem Björn hélt konsert í tónlistardeild háskólans þar í borg kl. 13:30. Mesti kuldi ársins var þá í Brandon og með vindkælingunni var mínus 41 gráða á C. Fyrir bragðið var fámennt, aðeins um 30 manns. Rétt fyrir kl. 15 ókum við af stað frá Brandon sem leið lá suður fyrir Winnipeg og þaðan að landamærum BNA og suður til Mountain í Norður Dakóta, en þar átti Björn að halda tónleika kl. 20. Þegar við Björn vorum komnir dágóðan spöl frá Brandon fór að bera á snjófjúki og sumstaðar fauk yfir þjóðveginn. Ekki bætti myrkrið svo úr skák þegar það skall á. Fór þá að fara um okkur. Ég ók eins hratt og frekast var á hættandi, en áhyggjur ágerðust eftir því sem á leið. Langar þagnir tóku við hjá okkur Birni og hugsaði hvor sitt ! Síðustu tugi kílómetrana var engin umferð og ekki hefði mátt koma neitt fyrir á þeim kafla. Mikil var því ánægja okkar að komast inn í hið stórglæsilega félagsheimili þeirra Fjallabyggðarmanna í Mountain 25 mínútum fyrir klukkan átta. Var okkur tekið með kostum og kynjum og fengum við kærkomna heita kjötsúpu. Klukkan nákvæmlega átta bauð Curtis Olafson, sem átti afmæli þennan dag, alla velkomna, ég kynnti Björn og hann sýndi eins og alltaf frábæra hæfileika sína og var óspart klappað lof í lofa.

Tónleikar Björns á þessum stöðum öllum báru yfirskriftina "Bjössi Thor og Bítlarnir".

Við gistum hjá ræðismanni okkar í N. Dakóta, Loretta Bernhoft og manni hennar Wayne, og nutum frábærrar gestrisini þeirra og svo hvíldar eftir "a hard day´s night". Daginn eftir ókum við sem leið lá norður yfir "línuna" eins og V. Íslendingar kalla landamærin, þaðan að flugvellinum í Winnipeg og Björn flaug heim á vit nýrra ævintýra. Hann átti m.a. eftir að fara til Denver fyrir jólin. Sjálfur skráði ég þessa ökuferð í bók minninganna um ótal eftirminnilegar "road trips" í þremur heimsálfum í starfi fyrir íslensku utanríkisþjónustuna undanfarin rúm 38 ár.

Hjálmar W. Hannesson er aðalræðismaður í Winnipeg

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics