Hoppa yfir valmynd

Norrænn matur handa 45 þúsund börnum í Washington

Sendiráð Norðurlandanna í Washington DC munu gefa 45 þúsund börnum í 125 ríkisskólum í höfuðborg Bandaríkjanna holla og næringarríka máltíð á Norræna matardeginum sem haldinn verður á morgun, 26. október. Sendiráð Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar standa fyrir matardeginum í samvinnu við skólayfirvöld í Washington.

Tilgangurinn er að kynna norrænar matarvenjur og menningu Norðurlanda fyrir börnunum. Á boðstólum verða hollir og einfaldir hversdagsréttir - kjötbollur, fiskur, skyr, hrökkbrauð og smurbrauð. Fimm norrænir matreiðslunemar, sigurvegarar í norrænni matreiðslukeppni, hafa liðsinnt starfsfólki skólaeldhúsanna við verkefni dagsins. Norrænir matvælaframleiðendur gefa hráefnið.

Björn Thoroddsen, hinn íslenski gítarsnillingur, mun einnig troða uppi í fjórum skólum og leika íslenska tónlist fyrir nemendur.

Með norræna matardeginum er ýtt úr vör samstarfsverkefni skólayfirvalda í Washington DC og flestra sendiráða í borginni. Ráðgert er að næstu árin verði fjórir dagar á ári helgaðir mat og menningu, hver dagur helgaður landi eða heimshluta,  Þannig fái nemendur ríkisskólanna tækifæri til að kynnast matarvenjum frá sem flestum menningarsvæðum.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics