Hoppa yfir valmynd

Alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita stofnaður 

Gunnar Bragi og Adnan Amin, framkvæmdastjóri IRENA.
Gunnar Bragi og Adnan Amin, framkvæmdastjóri IRENA.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti í dag opnunarávarp á fundi í tengslum við ríkjaráðstefnu loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París, þar sem tilkynnt var um stofnun alþjóðlegs samstöðuhóps um nýtingu jarðhita (Global Geothermal Alliance). Á fjórða tug ríkja og stofnana eiga sæti í hópnum. Í ræðu sinni sagði utanríkisráðherra að alþjóðasamfélagið yrði að ná saman um metnaðarfull markmið í loftlagsmálum. Í því samhengi væri mikilvægt að nýta þá möguleika sem jarðhitinn, sem orkuauðlind, veitir víða um heim. Fagnaði Gunnar Bragi þeim mikla áhuga sem samstöðuhópurinn hefur vakið, en á meðal stofnenda með Íslandi eru Frakkland, Bandaríkin, Ítalía og Nýja Sjáland, fjölmörg þróunarríki og fjölþjóðlegar stofnanir og aðilar á borð við Alþjóðabankann, Afríkusambandið og svæðabundna þróunarbanka. Orkustofnun, Íslenskar orkurannsóknir - ÍSOR og Jarðhitaskóli háskóla SÞ eru ennfremur stofnaðilar.

Í ræðunni rakti utanríkisráðherra reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita og mikilvægi hans í að draga úr notkun jarðefniseldsneytis á Íslandi undanfarna þrjá áratugi. Þá undirstrikaði hann mikilvægi þess að auka menntun og þekkingu í jarðhita á meðal sérfræðinga frá þróunarlöndum með starfsemi Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1978.

Ísland hefur verið í fararbroddi ríkja um stofnun samstöðuhópsins en alþjóðleg samtök um endurnýjanlega orkugjafa, IRENA, hafa leitt vinnuna og munu vista samstarfsvettvanginn, sem verður í Abu Dhabi. Með samstarfshópnum er ætlað að búa til vettvang ríkja, stofnana og fyrirtækja sem vinna að aukinni nýtingu jarðhita á heimsvísu.

Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins, að fimmfalda raforkuframleiðslu fyrir 2030 og tvöfalda jarðhita til húshitunar á sama tíma. Þá er samstarfsvettvangurinn liður í að styðja við frumkvæði framkvæmdastjóra SÞ um að auka hlutfall sjálfbærrar orku um meira en helming fram til ársins 2030 (Sustainable Energy for All by 2030). 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics