Hoppa yfir valmynd

Nr. 030, 21. apríl 1998:Halldór Ásgrímsson situr fund utanríkisráðherrafund Norðurlanda í Svíþjóð.

Fréttatilkynning

frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 30

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sat utanríkisráðherrafund Norðurlanda sem haldinn var í Thoresta Herrgård utan við Stokkhólm 20. - 21. apríl.

Hefðbundin Norðurlandasamvinna, samstarf Norðurlanda á grannsvæðum, málefni Evrópusambandsins, Schengen-samstarfið, nýskipan öryggismála og ástand mannréttindamála voru meginefni fundarins að þessu sinni. Utanríkisráðherrarnir áréttuðu mikilvægi Norðurlandasamvinnunnar í evrópsku samhengi. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hafði framsögu um norræna samvinnu og lýsti yfir áhuga á að auka tengsl milli utanríkisráðherra Norðurlanda og þess samstarfs landanna sem á sér stað innan Norðurlandaráðs, enda skipi utanríkismál æ veigameiri sess í störfum Norðurlandaráðs.

Í umræðu um Schengen-samstarfið lagði ráðherra áherslu á að skjót lausn fengist varðandi Ísland og Noreg. Á fundinum kom fram einhugur um að viðhalda norræna vegabréfasambandinu og að öll Norðurlöndin störfuðu náið saman um að koma málinu í höfn.

Ráðherrarnir lögðu áherslu á samstarf Norðurlanda á grannsvæðum innan vébanda Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og Norrænu ráðherranefndarinnar ásamt mikilvægi þess að tengja Eystrasaltsríkin Evrópusamstarfi. Þeir lýstu yfir áhyggjum vegna nýlegrar þróunar í samskiptum Rússlands og Lettlands og undirstrikuðu mikilvægi þess að leysa yrði deilumál þjóðanna með samvinnu og samráði.

Þá ræddu utanríkisráðherrarnir þróun öryggismála í Evrópu og stækkun Atlantshafs- bandalagsins. Í máli sínu lagði utanríkisráðherra áherslu á sjálfsákvörðunarrétt ríkja í öryggismálum og áframhaldandi þróun friðarsamstarfs Atlantshafsbandalagsins.

Á fundinum fjölluðu utanríkisráðherrar Norðurlanda um ástand mannréttindamála m.a. í Afganistan, Alsír og Burma. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra vakti sérstaka athygli á slæmri stöðu kvenna í Afganistan og hvatti til sameiginlegra aðgerða á alþjóðavettvangi til að bæta stöðu þeirra.

Yfirlýsing utanríkisráðherrafundar Norðurlanda í Thoresta Herrgård 20. - 21. apríl er hjálögð.

Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 21. apríl 1998.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics