Hoppa yfir valmynd

Nr. 037, 29. apríl 1998: Ráðherrafundur OECD, París, Frakklandi

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu
og fjármálaráðuneytinu
___________



Nr. 037

Dagana 27. til 28. apríl var haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar OECD. Fundinn sátu fyrir Íslands hönd Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, og Geir H. Haarde, fjármálaráðherra.

Á fundinum var fjallað um ástand og horfur í efnahagsmálum og áhrif fjármálakreppunnar í Asíu. Þá var rætt um nauðsyn ýmissa skipulagsbreytinga, þ.m.t. í lífeyrismálum. Ennfremur var rætt um alþjóðaviðskiptamál, einkum um hinn fjölþjóðlega fjárfestingasáttmála (MAI) sem hefur verið í undirbúningi í nokkur ár á vettvangi OECD. Á fundinum var athyglinni sérstaklega beint að rafrænum viðskiptum og mikilvægi þeirra fyrir framþróun heimsviðskipta. Að síðustu var fjallað um framtíðarhlutverk OECD. Ráðherrarnir áréttuðu að kreppan í Asíu hefði sýnt fram á stöðugt vaxandi tengsl milli einstakra landa og mikilvægi heilbrigðs efnahagslífs. Jafnframt bentu ráðherrarnir á að mikilvægur árangur hafi náðst á sviði efnahagsmála í flestum aðildarlöndum OECD.

Hagvöxtur er mikill og verðbólga lág. Einnig hefur staða opinberra fjármála batnað verulega. Atvinnuleysi er hins vegar ennþá umtalsvert, þrátt fyrir að störfum hafi fjölgað mikið að undanförnu. Ráðherrarnir lögðu því sérstaka áherslu á nauðsyn þess að fylgja eftir ábendingum OECD til að draga úr atvinnuleysi.

Á fundinum fjallaði fjármálaráðherra sérstaklega um lífeyrismál og benti á nauðsyn þess að treysta stöðu lífeyriskerfisins. Hann vakti athygli á skipulagi, uppbyggingu og þróun lífeyrissjóðakerfisins á Íslandi og benti á að í þeim efnum stæði Ísland nokkuð vel í samanburði við önnur OECD ríki. Ennfremur varaði hann við því að lífeyrisaldur yrði lækkaður. Frekar ætti að gefa fólki kost á lengri starfsaldri.

Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi frjálsra milliríkjaviðskipta til að örva hagvöxt og bæta lífskjör. Í umræðunum um hinn fjölþjóðlega fjárfestingarsáttmála töldu ráðherrar almennt mikilvægt að ljúka því starfi sem fyrst. Hins vegar lýstu fulltrúar nokkurra ríkja þeirri skoðun sinni að fresta bæri viðræðunum tímabundið og/eða að flytja þær yfir á vettvang Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Genf. Niðurstaða ráðherrafundarins varðandi þetta mál varð sú að halda næsta fund samninganefndarinnar í október n.k., en í millitíðinni yrði unnið að fjölgun þátttökuríkja og markmiðssetningu um lok viðræðnanna.

Í umræðunum um rafræn viðskipti benti utanríkisráðherra á að í ljósi hinnar öru þróunar í þessari atvinnugrein gæti það ekki orðið hlutverk stjórnmálamanna að stýra þessari þróun, enda væri það óæskilegt. Hlutverk þeirra væri hins vegar að tryggja jafnræði og sanngirni í þessum viðskiptum með hagsmuni allra einstaklinga og fyrirtækja að leiðarljósi. Hann lagði áherslu á að tollar yrðu ekki lagðir á rafræn viðskipti.

Utanríkisráðherra ræddi um mikilvægi þess að tengja saman sjálfbæra þróun, umhverfis- og efnahagsmál. Hann benti á mikilvægi þess að nýta með skynsamlegum hætti endurnýjanlegar auðlindir, svo sem orkulindir og fiskistofna. Hann nefndi góða reynslu Íslendinga á sviði fiskveiðistjórnunar, sem gæti orðið öðrum þjóðum fyrirmynd á því sviði.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. apríl 1998.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics