Hoppa yfir valmynd

Nr. 032, 24. apríl 1998: Íslensk stjórnvöld lýsa áhyggjum vegna mengunarhættu frá Dounreay.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 32.

Helgi Ágústsson ráðuneytisstjóri kallaði í dag sendiherra Bretlands og Bandaríkjanna til fundar í utanríkisráðuneytinu og kom á framfæri alvarlegum áhyggjum íslenskra stjórnvalda vegna samkomulags Breta og Bandaríkjamanna um flutning á 5 kílóum af auðguðu úrani frá Tiblisi í Georgíu til endurvinnslustöðvarinnar í Dounreay í Skotlandi.

Ráðuneytisstjóri vakti sérstaka athygli á áhyggjum Íslendinga vegna hættu á geislamengun frá endurvinnslustöðvunum í Dounreay og Sellafield fyrir lífríkið í hafinu. Mengun frá stöðvunum gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf og beinlínis hindrað eðlilega nýtingu Íslendinga á lifandi auðlindum sjávar.

Hann upplýsti að aukin umsvif í starfsemi stöðvanna væri stjórnvöldum á Norðurlöndunum áhyggjuefni og minnti á það, að umhverfisráðherrar Norðurlandanna sendu sameiginlegt bréf til hins breska starfsbróður síns hinn 27. febrúar síðastliðinn, þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum vegna losunar á geislavirkum efnum frá stöðvunum í Sellafield og Dounreay.

Hann vísaði til þess að hinn 8. febrúar 1988 samþykkti Alþingi ályktun, þar sem stækkun Dounreay stöðvarinnar var mótmælt og síðan hafa íslensk stjórnvöld nokkrum sinnum gert athugasemdir við starfsemina, m.a. hinn 26. október 1989, þegar lýst var yfir áhyggjum vegna þeirrar ákvörðunar bresku stjórnarinnar að heimila byggingu endurvinnslustöðvar fyrir brennsluefni kjarnaofna í Dounreay í Skotlandi.

Ráðuneytisstjóri minnti ennfremur á, að íslensk stjórnvöld hafa talið starfsemi Dounreaystöðvarinnar ekki í samræmi við ákvæði OSPAR-samningsins um vernd lífríkis sjávar í Norð-austur-Atlantshafi, en Bretland er aðili að samingnum.

Ennfremur taldi hann þessa starfsemi ekki í samræmi við þau ákvæði Ríó-samþykktarinnar sem mæla gegn því að kjarnorkuúrgangi verði komið fyrir nálægt hafinu.

Mikilvægt væri fyrir þau ríki sem hlut ættu að máli, að minnast þess að nú stendur yfir ár hafsins og því þyrftu stjórnvöld í viðkomandi ríkjum að sýna þann vilja sinn í verki að leitast við að vernda hafið gegn mengun, ekki síst geislamengun, og tryggja verði að komandi kynslóðir geti í framtíðinni nýtt sér lifandi auðlindir hafsins til fæðuöflunar.

Ráðuneytisstjórinn sagði að vissulega væri mikilvægt að koma auðguðu úrani frá óvissusvæðum, en Íslendingar gætu ekki sætt sig við að tekin yrði áhætta í sambandi við lífríki hafsins og þar með lífsafkomu íslensku þjóðarinnar. Lífríki hafsins væri of viðkvæmt til að slík áhætta væri tekin. Starfsemi stöðvanna í Dounreay og Sellafield væri mikið áhyggjuefni fyrir allar þjóðir sem land eiga að Norður-Atlantshafi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík 24. apríl 1998.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics