Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra ræðir þúsaldarmarkmið SÞ og áherslur Íslands á ráðherrafundi

Gunnar Bragi Sveinsson tekur þátt í hringborði um þúsaldarmarkmið SÞ

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tekur í dag þátt í ráðherrafundi um framvindu þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og mótun nýrra þróunarmarkmiða eftir 2015. Fundurinn fer fram á allsherjarþingi SÞ, þar sem Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóri SÞ kynnti nýja skýrslu sína um eftirfylgni við þúsaldarmarkmiðin.

Í hringborðsumræðu fundarins lagði utanríkisráðherra áherslu á að þótt mikill árangur hafi náðst í baráttu gegn fátækt, í menntamálum og í heilbrigðismálum, sé enn mikið verk óunnið. Ríki heims þurfi að sameinast um ný þróunarmarkmið sem byggist á jákvæðum árangri síðustu ára en tryggi jafnframt komandi kynslóðum aukna hagsæld og réttindi.

Í máli sínu fjallaði ráðherra um áherslur Íslands í þróunarsamvinnu, þar sem menntun, heilbrigðisþjónusta, sjálfbær nýting náttúruauðlinda, kynjajafnrétti og umhverfismál eru meginstef.

Gunnar Bragi sagði mikilvægt að beina athyglinni að málefnum hafsins, með áherslu á framkvæmd þeirra alþjóðasamninga og markmiða sem hafa þegar verið samþykkt. Sagði hann brýnt að bregðast við orkuþörf þróunarlanda með aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og takast á við landeyðingu, sem hljóti ekki nægjanlega athygli í alþjóðastarfi. Þörf sé á átaki í landgræðslumálum svo markmið um aukið fæðuöryggi og bættan vatnsbúskap náist.

Þá lagði utanríkisráðherra sérstaka áherslu á mikilvægi kynjajafnréttis og valdeflingu kvenna. Sagði hann áríðandi að samþætta kynjasjónarmið í öllu þróunarstarfi og að mótuð verði sérstök markmið í jafnréttismálum.

Ávarp ráðherra
Ávarp Ban Ki-moon

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics