Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra á Norðurlandaráðsþingi

Mynd/Photo: Magnus Fröderberg / Norden.org
Ossur-Skarphedinsson-a-Nordurlandaradsthingi-(Large)

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hitti í dag utanríkisráðherra Norðurlandanna í tengslum við fundi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. málefni Palestínu og gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um þróun mála síðustu daga. Lýst er þungum áhyggjum af viðbrögðum Ísraelsmanna við aðild Palestínu að Menningarmálastofnun SÞ, UNESCO, og sagt að áform Ísraelsstjórnar um áframhaldandi uppbyggingu landtökubyggða séu brot á alþjóðalögum. Yfirlýsinguna í heild má lesa hér (á ensku).

Utanríkisráðherrarnir tóku einnig ákvörðun um að efla norrænt samstarf gegn netógnum. Sett verður á fót samstarfsnet Norðurlandanna sem mun m.a. hafa það markmið að auka öryggi upplýsingakerfa og styrkja aðgerðir og viðbrögð við netógnum. Þá ákváðu ráðherrarnir að á grundvelli tillagna Stoltenberg-skýrslunnar verði unnin langtímaáætlun um enn nánara samstarf í húsnæðismálum með það að markmiði að Norðurlöndin starfræki víðar sendiskrifstofur í sameiginlegum byggingum. Þá fjölluðu utanríkisráðherrarnir um þróun mála í Norður-Afríku og ákváðu að leita leiða til að samræma stuðning Norðurlandanna við ríkin á svæðinu meðal annars í mannréttindamálum og jafnréttismálum.

Fyrr í dag hittust utanríkisviðskiptaráðherrar Norðurlandanna og sat utanríkisráðherra þann fund fyrir Íslands hönd. Þar var meðal annars rædd staða Doha-viðræðnanna innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), viðræður um aðild Rússlands að WTO sem Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra stýrir, og áætlanir Dana í fyrirhugaðri formennsku í ráðherraráði ESB sem hefst nú um áramótin og stendur fram á mitt ár 2012.

Mynd: Magnus Fröderberg / Norden.org

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics